Í SEPTEMBER 1996 stofnuðu þroskaþjálfar stéttarfélag sem heitir Þroskaþjálfafélag Íslands, skammstafað ÞÍ. Meginmarkmiðið með stofnun stéttarfélags var að að fá réttinn til að semja um kaup og kjör í hendur þroskaþjálfa sjálfra og ennfremur að sameina þroskaþjálfa í einu félagi sem bæði sinnir faglegum og kjaralegum þáttum starfsins.
Fróðleikskorn

um þroskaþjálfa

Fatlað fólk hefur þörf fyrir og á rétt á góðri fagþjónustu. Sólveig Steinsson telur hættu á að þroskaþjálfar flýi yfir í betur launuð störf.

Í SEPTEMBER 1996 stofnuðu þroskaþjálfar stéttarfélag sem heitir Þroskaþjálfafélag Íslands, skammstafað ÞÍ. Meginmarkmiðið með stofnun stéttarfélags var að að fá réttinn til að semja um kaup og kjör í hendur þroskaþjálfa sjálfra og ennfremur að sameina þroskaþjálfa í einu félagi sem bæði sinnir faglegum og kjaralegum þáttum starfsins.

Menntun þroskaþjálfa fer fram í Þroskaþjálfaskóla Íslands og tekur þrjú ár að loknu stúdentsprófi og munu þeir nemendur sem hófu nám sitt haustið 1996 útskrifast með B.ed. gráðu, þ.e. námið orðið viðurkennt sem nám á háskólastigi.

Þroskaþjálfun er lögverndað starfsheiti og eru starfsleyfi gefin út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Þroskaþjálfar starfa samkvæmt lögum um þroskaþjálfa nr. 18/1978 og reglugerð um störf, starfshætti og starfsvettvang þroskaþjálfa nr. 215/1987.

Þroskaþjálfar eru ekki ný stétt, þeir hafa starfað með fólki með fatlanir í áratugi og hafa þeir sérmenntað sig til að vinna með fólki með fatlanir og þá einkum þroskaheftu fólki. Meginþættir þroskaþjálfunar eru þjálfun, uppeldi og umönnun. Þroskaþjálfar vinna með fötluðu fólki á öllum aldri og eru því vinnustaðir þroskaþjálfa margir og um margt ólíkir. Þeir starfa á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, þar sem fram fer greining á fötlun barnsins og þjálfun hefst, þeir starfa á leikskólum, í skólum, á þjónustustofnunum, vinnustöðum, á heimilum fatlaðra og taka þátt í að meta þörf og skipuleggja þjónustu fyrir fatlað fólk. Það hefur sýnt sig að þar sem fatlaðir dvelja við leik, störf eða nám er þörf á þekkingu þroskaþjálfa. Þroskaþjálfar vinna í náinni samvinnu við annað fagfólk og eru einn hlekkur í þeirri keðju fagfólks sem nauðsynleg er til að fatlað fólk og aðstandendur þeirra fái þá ráðgjöf og þann stuðning sem þörf er á. Starfsvettvangur þroskaþjálfa hefur tekið breytingum í gegnum tíðina í ljósi aukinnar og betri þekkingar á fötlun og afleiðingum hennar svo og möguleikum fatlaðra til að nýta hæfileika sína til hagsbótar fyrir sig sjálfa og þjóðfélagið í heild. Og leyfi ég mér að efast um að nokkur stétt hafi í jafn ríkum mæli tekið þátt í að leggja niður eigin vinnustaði og tekist á við nýjan starfsvettvang svo sem þroskaþjálfar hafa gert til að mæta þörfum sinna skjólstæðinga. Þroskaþjálfar eru enn að stærstum hluta ríkisstarfsmenn en þeim fjölgar stöðugt sem starfa hjá sveitarfélögum.

Þroskaþjálfar eru nú í fyrsta sinn að gera kjarasamning sem sjálfstæður samningsaðili og eins og hjá mörgum öðrum stéttum voru samningar lausir um síðustu áramót og samningaviðræður við samninganefnd ríkisins og Reykjavíkurborg fóru í gang. Í júlí slitnaði upp úr viðræðum og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara og eru viðræður í gangi núna.

Byrjunarlaun þroskaþjálfa eru 74.770 kr. og eftir 18 ára starf 88.111 kr. Þetta eru þau laun sem þroskaþjálfinn fær og ekkert annað, ekki er um neinar aukasporslur að ræða. Ein megin krafa þroskaþjálfa í samningum núna er hækkun grunnlauna; að þau verði 110 þús kr. á mánuði sem felur í sér í fyrsta lagi leiðréttingu, þar sem á undanförnum árum hefur stöðugt hallað á laun þroskaþjálfa miðað við þær fagstéttir sem þeir starfa í náinni samvinnu við og hafa sambærilegt nám að baki og í öðru lagi þær hækkanir sem samið hefur verið um að undanförnu.

Það segir sig væntanlega sjálft að þau laun sem þroskaþjálfi fær í dag eru ekki í neinu samræmi við það vinnuframlag og þá ábyrgð sem störf þroskaþjálfa fela í sér. Rétt eins og aðrir í framhaldsnámi þurfa þroskaþjálfar að taka námslán og standa skil á þeim sem og öðru sem þarf til að lifa. Ekki er óalgengt að þroskaþjálfar stundi aðra vinnu með aðalstarfinu til að komast af. Á þessu og þeirri vanvirðingu sem í því felst að vera sá fagaðili sem hefur lang lélegustu launakjörin eru þroskaþjálfar orðnir langþreyttir og vilja sjá breytingu þar á.

Um hverja helgi má sjá í auglýsingadálkum dagblaðanna auglýst eftir þroskaþjálfum til starfa og því ljóst að þroskaþjálfar eru eftirsóttir fagmenn og þörfinni fyrir þroskaþjálfa engan veginn fullnægt. En hætt er við að alltof stór hluti þroskaþjálfa gefist upp og leiti sér annarra starfa ef ekki verður breyting á launakjörum þeirra. Ef það er raunverulegur vilji yfirvalda að fatlað fólk fái góða þjónustu, þjónustu sem það á rétt á, þá þarf jafnframt að sjá til þess að fagmennska sé höfð í fyrirrúmi og þar gegna þroskaþjálfar mikilvægu hlutverki.

Höfundur er formaður Þroskaþjálfafélags Íslands.

Sólveig Steinsson