NÝJASTA tískubólan í líkamsræktinni er spinningtímar þar sem fólk hjólar í gríð og erg í takt við tónlist. Tímarnir eru yfirleitt 45 mínútur og þeir sem þekkja til segja að ekki þurfi mörg skipti til þess að falla fyrir þessari tegund líkamsræktar þar sem brennslan sé mikil og árangurinn skili sér fljótt í minna ummáli.
ÐEru allir ífínu formi?
Á hverju hausti flykkjast Íslendingar í líkamsræktarstöðvarnar fullir eldmóði og með fögur fyrirheit um heilbrigðari lífsmáta og betra form. Stór hluti þeirra gefst upp innan örfárra vikna, bæði vegna þess að of geyst er farið af stað og árangurinn lætur bíða eftir sér. Guðrún Hálfdánardóttir ræddi við eigendur nokkurra líkamsræktarstöðva.
NÝJASTA tískubólan í lík amsræktinni er spinningtímar þar sem fólk hjólar í gríð og erg í takt við tónlist. Tímarnir eru yfirleitt 45 mínútur og þeir sem þekkja til segja að ekki þurfi mörg skipti til þess að falla fyrir þessari tegund líkamsræktar þar sem brennslan sé mikil og árangurinn skili sér fljótt í minna ummáli. Þeir starfsmenn líkamsræktarstöðva sem Morgunblaðið ræddi við voru almennt sammála um að mikil og öflug markaðssetning á spinning hefði skilað sér inn í hug Íslendinga og nú þyki enginn maður með mönnum ef hann hafi ekki reynt spinning, æfi hann líkamsrækt á annað borð.
Um síðustu áramót hófu World Class og Ræktin að bjóða upp á spinningtíma og fljótlega fylgdu fleiri líkamsræktarstöðvar á eftir. Í dag bjóða flestar líkamsræktarstöðvarnar upp á spinning og eru forsvarsmenn þeirra sammála um að spinning sé það sem fólk vill í dag. Aftur á móti þá virðist vera misjafnt eftir stöðvunum hvað annað er vinsælt um þessar mundir.
Vinsældir dansins að aukast
Bjargey Aðalsteinsdóttir hjá Þokkabót segir að dansinn sé að koma inn aftur eftir margra ára lægð í líkamsræktarstöðvunum og allir danstímar séu fullir af fólki án þess að þeir hafi verið auglýstir sérstaklega. Bjargey segir, líkt og aðrir forsvarsmenn líkamsræktarstöðva, að sá hópur sem æfir líkamsrækt að staðaldri fari sífellt stækkandi og algengt sé að fólk breyti til yfir sumartímann og stundi þá frekar sund, fjallgöngur, og hjólreiðar. "Ég hvet okkar viðskiptavini hiklaust til að hvíla sig á inniverunni á sumrin og njóta þess frekar að hreyfa sig útivið en koma síðan endurnærðir aftur inn til okkar á haustin enda staðreynd að fólk verður leitt á því að stunda sömu líkamsræktina árið um kring."
Þreyta komin í fitubrennslunámskeið?
Bjargey segir að einkaþjálfun sé mikið að koma í staðinn fyrir lokuð fitubrennslunámskeið í Þokkabót. "Við verðum vör við það að fólk kaupir sér frekar eins mánaðar einkaþjálfun þar sem því er komið á stað bæði hvað varðar hreyfingu og mataræði í stað þess að fara á lokað fitubrennslunámskeið. Aftur á móti eru margir af viðskiptavinum okkar fólk sem hefur byrjað hjá okkur á lokuðum fitubrennslunámskeiðum en er farið að æfa sjálfstætt."
Hallgrímur Jónsson hjá Ræktinni segir að helsta nýjungin hjá Ræktinni í vetur sé fitubrennslunámskeið á spinninghjólum þar sem viss þreyta sé komin í hefðbundnu fitubrennslunámskeiðin og fólk vilji breyta til. Eins segir Hallgrímur að áhersla verði lögð á að vera með sérstök námskeið fyrir unglinga sem eiga við offituvandamál að stríða.
Að sögn Ágústu Johnson hjá Stúdíói Ágústu og Hrafns eru spinningtímar að slá í gegn hjá þeim líkt og hjá öðrum líkamsræktarstöðvum og telur hún fullvíst að hvergi í heiminum hafi spinning fengið aðrar eins viðtökur og hér á landi. "Ég tel að vinsældir spinning komi aðallega til vegna þess hversu einfaldir tímarnir eru og hve góð fitubrennsla er í þeim. Hjá okkur er mikil ásókn í lokaða fitubrennslutíma og það eru margir sem byrja í lokuðum hópum þar sem þeir fá mikið aðhald en fara síðan að æfa sjálfstætt eftir að hafa fengið ráðgjöf hjá reyndum leiðbeinendum um nokkurra vikna skeið. Þetta er sjöunda árið sem við bjóðum upp á lokuð fitubrennslunámskeið og ásóknin eykst ár frá ári."
Hafdís Jónsdóttir hjá World Class segir að nú sé mjög vinsælt að æfa í tækjum og þau hjá World Class séu að taka í notkun ný tæki þessa dagana til þess að svara auknum kröfum um vel útbúna tækjasali. "Öll upphitunartæki líkt og hlaupabrautir, stigvélar og hjól eru einnig mjög vinsæl enda hentar þetta æfingamynstur fólki vel sem ekki á auðvelt með að mæta á fyrirfram ákveðnum tíma vegna vinnu. Við erum að bæta við 20 nýjum hlaupabrettum ásamt því að vera með 45 spinninghjól. Eins er World Class að byrja með "Cardio theatere" þar sem fólk getur valið um að horfa á átta mismunandi sjónvarpsstöðvar um leið og hitað er upp eða jafnvel komið með myndbandsspólur að heiman. Á hverju upphitunartæki verður síðan lítið tæki þar sem þú velur á hvaða sjónvarpsstöð þú vilt hlusta á með heyrnartólum. Eins verður hægt að hlusta á tónlist af geisladiskum og útvarpi í heyrnartólunum. Með þessu erum við að reyna að koma á móts við viðskiptavini okkar sem þurfa að nýta sinn tíma sem allra best."
Æft og farið í ljós á nóttunni
Um síðustu mánaðamót var komið á þeirri nýjung hjá World Class að hafa stöðina opna allan sólarhringinn en stöðin er opnuð á mánudagsmorgni klukkan sex og ekki lokað fyrr en klukkan 22.30 á föstudagskvöldi auk þess sem opið er yfir daginn um helgar.
Hafdís segir að ekki sé hægt að fara í leikfimitíma yfir blánóttina en síðustu tímar kvöldins enda klukkan 11 og fyrstu tímarnir á morgnana byrja klukkan 6.30. Aftur á móti eru tækjasalurinn, ljósabekkirnir, heitu pottarnir og baðaðstaðan opin yfir nóttina. Hafdís segir að ekki sé komin mikil reynsla á að hafa opið svona lengi en viðbrögðin hafi verið góð hingað til. Með þessu hafi stöðin viljað svara þörfum fólks sem vinnur á óreglulegum tíma.
Skiptar skoðanir um kort til margra ára
Hilmar Björnsson hjá Mætti er sammála Hafdísi um að tækin njóti meiri vinsælda en áður. Eins sé sífellt að verða algengara að fólk fari í einkaþjálfun og aðhaldshópa þar sem einn kennari tekur að sér 1012 manna hóp í þoltímum í tækjum. Þá leiðbeinir hann hópnum þrisvar í viku í tækjum, þolmælir og fylgist með ástandi hópsins, segir Hilmar.
Flestar líkamsræktarstöðvarnar eru farnar að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að kaupa kort þar sem fólk bindur sig til 1236 mánaða í stað 13 mánaða áður. Ekki eru allir eigendur stöðvanna þó ánægðir með þessa þróun og telja að með því sé verið að njörva fólk niður við að æfa hjá sömu stöðinni í mörg ár hvort heldur sem stöðin standi undir þeim væntingum sem gerðar eru til hennar í upphafi. Eins ef viðskiptavinurinn flytur út á land eða til útlanda að þá þurfi hann að greiða mánaðarlega til líkamsræktarstöðvar sem hann sækir ekki lengur. Á móti kemur að þeir sem bjóða upp á þessi langtímakort segja að með þessu sé það frekar tryggt að fólk gefist ekki upp eftir nokkurra mánaða sprikl án þess að sjá þann árangur sem vonast er eftir. Heldur haldi það áfram að æfa enda sé líkamsrækt engin "skyndihjálp".
Það er því útlit fyrir að Íslendingar verði í fínu formi í lok vetrar eftir að hafa stundað spinningtíma og aðra líkamsrækt vetrarlangt á hinum ýmsu tilboðum sem líkamsræktarstöðvarnar bjóða landanum upp á um þessar mundir.
Morgunblaðið/Kristinn SPINNINGTÍMAR er nýjasta æðið í líkamsræktinni og eru flestallar líkamsræktarstöðvarnar farnar að bjóða upp á spinningtíma.
PALLATÍMAR eiga enn upp á pallborðið hjá vissum hópi þeirra sem stunda líkamsræktarstöðvarnar.
EINKAÞJÁLFUN er á mörgum stöðum að taka við af lokuðum fitubrennslutímum.
Mikil og öflug markaðssetning á spinning að skila sér