Stykkishólmi-Gamlakirkjan í Stykkishólmivar byggð árið 1879 oger því nærri 120 áragömul. Það var HelgiHelgason, tónskáld oghúsasmiður, sem teiknaði kirkjuna og Jóhannes Jónsson, snikkari fráReykjavík, tók að sérað byggja hana. Kirkjan stendur við Aðalgötu, í hjarta bæjarins,ásamt mörgum gömlumhúsum sem hafa veriðendurbyggð.

Gamla kirkjan

í Stykkishólmi endurbyggð

Stykkishólmi - Gamla kirkjan í Stykkishólmi var byggð árið 1879 og er því nærri 120 ára gömul. Það var Helgi Helgason, tónskáld og húsasmiður, sem teiknaði kirkjuna og Jóhannes Jónsson, snikkari frá Reykjavík, tók að sér að byggja hana. Kirkjan stendur við Aðalgötu, í hjarta bæjarins, ásamt mörgum gömlum húsum sem hafa verið endurbyggð. Kirkjan er órjúfanlegur hluti þessarar húsaþyrpingar og því hefur verið áhugi hjá heimamönnum að varðveita hana. Fyrir nokkrum árum var hafist handa við að endurbyggja kirkjuna en það verk hefur legið niðri í nokkur ár.

Í síðasta mánuði skipaði sóknarnefnd Stykkishólmskirkju nefnd sem hefur það verkefni að ljúka endurbyggingu gömlu kirkjunnar. Nefndina skipa Rakel Olsen, Dagbjört Höskuldsdóttir, Ólafur Ólafsson, Bernt Sigurðsson, Gunnar Sturluson og William Thomas Möller.

Nefndin hefur þegar hafið störf og föstudaginn 12. september boðaði hún til fundar í gömlu kirkjunni og gerði grein fyrir áformum sínum um endurbyggingu kirkjunnar. Þar mætti Hjörleifur Stefánsson arkitekt. Hann hefur gert úttekt á gömlu kirkjunni og gert tillögur um hvernig haga ber endurbyggingu. Hann rakti sögu kirkjunnar og lagði áherslu á listrænt gildi hennar og mikilvægi í sögu Stykkishólms. Áætlað er að það kosti um 10 milljónir að ljúka við endurbygginguna. Búið er lagfæra austur- og suðurhliðar kirkjunnar.

Nú þarf að laga vestur- og norðurhliðarnar og fara yfir glugga. Kirkjuturninn verður endurbættur og honum breytt í upphaflega mynd og kirkjuþakið klætt steinflísum eins og var. Þá þarf að mála kirkjuna í hólf og gólf.

Nefndarmenn vonast til að verkið hefjist nú á haustmánuðum og verði viðgerð kirkjunnar lokið að utan fyrir áramót og verkinu öllu á næsta ári, ef nægilegt fjármagn fæst.

Til að standa straum af þessum kostnaði mun nefndin fara af stað og leita eftir fjárframlögum frá velunnurum í Stykkishólmi og um allt land. Nú þegar hafa borist veglegar peningagjafir til verksins.

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason GAMLA kirkjan í Stykkishólmi var byggð árið 1879. Það var Helgi Helgason tónskáld sem teiknaði hana.

ÞAU skipa nefnd sem falið er að ljúka endurbótum á gömlu kirkjunni en vonast er til að verkinu ljúki á næsta ári.