Ljósfræðilegt
ferðalag
MYNDLIST
Hafnarborg
LJÓSMYNDIR
CLARE LANGAN
Opið alla daga frá kl. 1218. Lokað
þriðjudaga. Til 22. september. Aðgangur 100 kr.
ÍRSKA myndlistarkonan Clara Langan á að baki giska óvenjulegan námsferil. Eftir próf í höggmyndadeild við listaháskólann í Dublin 1989 hóf hún nám í kvikmyndagerð og lauk prófi frá New York háskóla 1993.
Listakonan virðist þó frekar vinna í ljósmyndatækni en hreyfimyndum, þótt svo myndir hennar virki óneitanlega hreyfðar, en það hefur nokkuð færst í vöxt að ljósmyndir í yfirstærðum séu settar úr fókus. Og yfirstærðir má réttilega nefna ljósmyndirnar, því þrátt fyrir að ekki séu nema 9 myndir á sýningunni fylla þær aðalsal Hafnarborgar á þann veg að fleiri hefðu þær helst ekki mátt vera. Annað mál er að salurinn virðist ekki hentugur rammi utan um þær, þar sem einhver tómleikabragur er yfir aðkomunni. Hins vegar hverfur hann eftir að rýnt hefur verið í myndirnar um stund og hver og ein nær að skila sér til sjóntauganna.
Það er svo borðleggjandi að kvikmyndir eru útgangspunktur þessarar sérstæðu tækni, en myndirnar eru teknar gegnum handgerðan filter. Jafnframt mikið rétt, að sumir hlutar myndanna leiða hugann á stundum frekar að abstrakt málverki en ljósmynd, þótt skoðandinn sé vel meðvitaður um að hér sé ljósopið að verki. Titlar myndanna eru hinar furðulegustu talnaraðir, vísa frekar til tækninnar en myndefnanna, sem eru þó skýrt afmörkuð. Þannig er mynd nr. 3 líkust næturljóði í hinum mjúka bláma sínum og andstæða hennar við hliðina (4) eins og ástaróður til náttúrunnar og birtumagnanna, mettuð lífsgleði og samræmdum litum grómagna jarðar. En hér er vel að merkja öðru fremur um að ræða að skila tilfinningunni fyrir birtunni á hverjum stað.
Myndferlinu skiptir Langan yfirleitt í tvo eða þrjá hluta eins og til að undirstrika hreyfinguna í því, og ná myndbreytingarnar iðulega að magna ferlið upp, einkum í náttúrustemmunni nr. 4, sem má telja hámark sýningarinnar.
Hagleikur
Sverrissalur
LISTMUNIR
EGILL ÓLAFUR STRANGE
Í TILEFNI 70 ára afmælis Egils Ólafs Strange módelsmiðs er mikill fjöldi muna sem hann hefur unnið að og mótað á langri starfsævi til sýnis í Sverrissal. Langmest ber á munum sem skornir eru út við hin ýmsu tækifæri og bera mikilli verkmennt og upprunalegum hagleik vitni. Það sem rýninum þykir meira um vert, er að hagleiksmaðurinn virðist einnig hafa hönnunartilfinningu til að bera, sem kemur einkum fram í leikföngum þeim sem til sýnis eru og hann smíðaði handa börnum sínum, en Egill hefði mátt fá tækifæri til að gera stórum meira af. Það er einmitt þetta sem svo mjög hefur skort á landi hér, sem er skilningur fyrir hönnun og listiðnaði, sem hefði getað fært þjóðarbúinu mikinn ágóða ef rétt hefði verið að málum staðið. Það er mikill og drjúgur sómi að hagleik og verkmennt, sem þó er annað en skapandi hönnun og loks er völundarsmíði nokkuð sem Íslendingar gera sér ekki alveg grein fyrir. En hvernig eiga þeir að gera sér fulla grein fyrir hugtakinu með hliðsjón af því að menntakerfið gerir þessari hlið fræðslu nánast engin skil, kannski 0,01% og að uppeldis- og kennslufræði virðist mun mikilvægari allri áþreifanlegri sannmenntun. Skilin á milli þessara þátta eru mjög skýr og hugtökin afmörkuð í listasögunni. Sennilega er græna hvelfingin í Dresden, þar sem verk dverghaga eins og Johanns Sebastians Dinglingers og Balthasars Permosers sér stað, hér helsta opinberunin.
Módelsmíðin vakti athygli og þá einkum af Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi, sem er afar fín smíð. Sjálf byggingin er svo auðvitað undirstaða vinnubragðanna en hún var merkilega reisuleg og bar fagurlega við útlínur sjónhringsins. Hefðu seinni tíma húsameistarar að ósekju mátt draga hér meira dám af, skipulagsfræðingar raunar enn frekar, einkum af Laugarnesinu öllu, en um það er farsælast að hafa sem fæst orð.
En hér skal tekið ofan fyrir hagleiksmanninum sjötuga.
Bragi Ásgeirsson
EGILL Ólafur Strange; Leikföng. CLARE Langan; Ferli, Bláa lónið, 1997.