Deila Færeyja og Bretlands um lögsögumörk varðar hugsanlega olíuhagsmuni Getur seinkað lausn á deilunni um Hvalbak Deila Færeyja og Bretlands um lögsögumörk á "hvíta svæðinu" þar sem olíu kann að vera að finna getur seinkað því að lausn finnist á deilu Færeyja og Íslands um stöðu Hvalbaks,
Deila Færeyja og Bretlands um lögsögumörk varðar hugsanlega olíuhagsmuni Getur seinkað lausn á deilunni um Hvalbak

Deila Færeyja og Bretlands um lögsögumörk á "hvíta svæðinu" þar sem olíu kann að vera að finna getur seinkað því að lausn finnist á deilu Færeyja og Íslands um stöðu Hvalbaks, skrifar Ólafur Þ. Stephensen. Í báðum tilfellum er deilt um stöðu óbyggðra eyja. DEILA Færeyja við Bretland um mörk landgrunnslögsögu landanna á "hvíta svæðinu" svokallaða milli Skotlands og Færeyja, flækir viðræður Færeyja og Íslands um lögsögumörk. Líklegt er að olía finnist á "hvíta svæðinu" og eru færeysk stjórnvöld treg til að gera samning við Ísland um lögsögumörkin fyrr en niðurstaða hefur fengizt í deiluna við Bretland, þar sem mun meiri hagsmunir eru í húfi.

Tenging þessara tveggja deilna felst í því að bæði Ísland og Bretland miða við óbyggðar eyjar eða sker er þau gera kröfu til þess hvar miðlína milli þeirra og Færeyja eigi að liggja. Íslenzk stjórnvöld miða við Hvalbak, 10 metra hátt óbyggilegt klettasker, sem grunnlínupunkt og Bretar miða jafnframt m.a. við óbyggðar eyjar, sem tilheyra Orkneyjum og Vestureyjum.

Færeysk stjórnvöld telja að viðurkenndu þau áhrif Hvalbaks að einhverju eða öllu leyti í samningi við Ísland væru þau um leið að veikja stöðu sína í viðræðunum við Breta. Þess vegna er hugsanlegt að deilan um "hvíta svæðið" seinki því að Danmörk, fyrir hönd Færeyja, og Ísland nái sams konar samkomulagi og nú hefur náðst við Dani fyrir hönd Grænlendinga um stöðu Kolbeinseyjar og lögsögumörkin milli Íslands og Grænlands.

Olíuhagsmunir í húfi

Árni Olafsson, formaður færeysku viðræðunefndarinnar í viðræðum við Breta, segir í samtali við Morgunblaðið að deila Færeyja og Bretlands um lögsögumörk hafi staðið árum saman og lítið gengið að leysa hana. Nú í sumar hafi löndin komið sér saman um að reyna til þrautar í hálft ár, þ.e. út árið, að ná samkomulagi. Takist það ekki verði að vísa deilunni til Alþjóðadómstólsins í Haag. Næsti samningafundur er áformaður í London 25. þessa mánaðar. "Þetta er síðasta tilraun til að semja," segir Árni.

Hann segir mikilvægt að deilan verði leyst til þess að Færeyjar og Bretland geti úthlutað olíufélögum leyfum til olíuleitar, en Færeyingar hyggjast úthluta fyrstu leyfunum í sinni lögsögu næsta vor. "Hvíta svæðið" er talið áhugavert með tilliti til olíuleitar en leyfum þar verður ekki úthlutað meðan deilt er um lögsögumörkin. "Ef olíufélögin eiga að leggja í milljarða fjárfestingu verða þau að vita hver fer með lögsögu á svæðinu, Færeyjar eða Bretland," segir Árni.

Árni segir að þótt deilt sé bæði um mörk fiskveiði- og landgrunnslögsögu ríði mest á að leysa deiluna um landgrunnslögsöguna vegna hugsanlegra olíuhagsmuna. "Við höfum lifað með deilunni um fiskveiðilögsöguna í 20 ár og bæði færeyskir og brezkir fiskimenn hafa veitt á umdeildum svæðum án þess að nein alvarleg atvik hafi komið upp," segir hann.

Bretar miða við óbyggðar eyjar og sker

Nýlega lýstu Bretar því yfir að þeir myndu hætta að miða fiskveiðilögsögu sína við klettinn Rockall, þar sem slíkt stæðist ekki ákvæði hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, sem Bretland fullgilti í síðasta mánuði. Í samningnum segir að klettar, sem ekki geti borið mannabyggð eða eigið efnahagslíf, skuli ekki hafa nokkra sérefnahagslögsögu eða landgrunn.

Yfirlýsing Breta hefur þau áhrif að áður umdeilt svæði í suðvesturhorni færeysku lögsögunnar verður óumdeild færeysk fiskveiðilögsaga. Aðspurður hvort hann telji að ákvörðun Breta muni að öðru leyti styrkja stöðu Færeyja í viðræðunum segist Árni vonast til að áhrif hennar verði a.m.k. einhver.

Bretar miða kröfu sína til fiskveiðilögsögu og landgrunns nú við St. Kildu í stað Rockall en það telja Færeyingar sömuleiðis hæpið, þar sem ekki hefur verið önnur byggð þar síðan um 1930 en fámenn brezk herstöð. Þá vilja Bretar einnig miða við aðrar óbyggðar eyjar og sker, til dæmis Flannan- eyjar, þar sem eingöngu gengur sauðfé á sumrin, tvö sker kennd við súlu og eyna North Rona, sem síðast var í byggð árið 1844.

Óbein tenging við Hvalbaksdeiluna

Árni segir deiluna við Bretland tengjast óbeint deilunni við Ísland um stöðu Hvalbaks. Hann segist telja æskilegast að fá niðurstöðu í deiluna við Bretland áður en samið verður um lögsögumörk við Ísland.

Ljóst er að fari deilan fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag getur þess orðið talsvert langt að bíða að dómsniðurstaða fáist. Það gæti viðhaldið óvissu um lögsögumörk Íslands og Færeyja.

Færeyskir togarar hafa nokkrum sinnum á undanförnum árum veitt á "gráa svæðinu", sem er á lögsögumörkum Íslands og Færeyja vegna deilunnar um Hvalbak. Landhelgisgæzlan hefur stuggað við skipunum en ekki fært þau til hafnar í samræmi við "heiðursmannasamkomulag" Íslands og Danmerkur frá 1988.

Þess ber að geta að deila Bretlands og Færeyja um landgrunnslögsögu innan 200 mílna frá ströndum landanna er aðskilið mál frá deilu þeirra um landgrunnsréttindi á Hatton-Rockall-hásléttunni, utan 200 mílna, en þar gerir Ísland einnig kröfu til landgrunnsréttinda.