MÉR ER sagt að þú sért yfirmaður tryggingafélaganna í landinu, ­ það er að segja að starfsemi þeirra heyri undir þig sem ráðherra viðskipta. Ég þurfti að vísu að hringja í þrjú ráðuneyti áður en ég fékk úr því skorið að svo væri, þannig að ég gauka að þér uppástungu um námskeið fyrir starfsfólk ráðuneyta um leið og ég sný mér að alvarlegri málum.
Er þetta hægt, Finnur?

Opið bréf til viðskiptaráðherra

Er það sæmandi, spyr Benedikt Brynjólfsson, að fólk sé metið og afskrifað eins og bílar, skrifstofuáhöld eða hvaða annað lausafé sem er?

MÉR ER sagt að þú sért yfirmaður tryggingafélaganna í landinu, ­ það er að segja að starfsemi þeirra heyri undir þig sem ráðherra viðskipta. Ég þurfti að vísu að hringja í þrjú ráðuneyti áður en ég fékk úr því skorið að svo væri, þannig að ég gauka að þér uppástungu um námskeið fyrir starfsfólk ráðuneyta um leið og ég sný mér að alvarlegri málum.

Ástæða þess að ég sendi þér þetta tilskrif er að ég varð fyrir því sem mér finnst vera bæði óþægileg lífsreynsla og niðurlægjandi fyrir mig sem persónu með bærilega sjálfsvirðingu.

Þannig er að mér varð það á, eftir 32 ára sjómennsku á togurum og fiskibátum, að slasast við vinnu mína úti á sjó. Eftir mikið japl, jaml og fuður, málalengingar og lögfræðistagl fór svo að mér voru boðnar bætur samkvæmt stuðlum nýju slysabótalaganna sem þið á löggjafarsamkundunni ­ fulltrúar fólksins, þú veist ­ samþykktuð; ekki þó til hagsbóta fyrir þetta fólk að því er virðist heldur til að tryggja tryggingarfélögin gegn því að þurfa að greiða því fólki sem iðgjöld hafa verið greidd af réttmætar bætur við slysfarir.

Ég semsé komst að því að ég er afskrifaður. Rétt eins og gamalt bílhræ. Afskrifaður. Eftir stöðlum sem áætla hve hugsanlega væri hægt að nota fimmtíu og sex ára gamlan mann lengi enn. Þennan mig sem er alinn upp á síðutogurum og smábátum og hefur aflað þjóðarbúinu tekna með streði sínu frá 13 ára aldri. Í tilboði til mín um lúkningu málsins frá Sjóvá- Almennum er í E-lið frádráttur vegna aldurs skv. 9. gr. 40% af slysabótum. Þarna er tekið eitthvert útreiknað meðaltal og miðað við að hægt sé að nota mig til 65 ára aldurs. Þá er ég semsé orðinn verðlaus og lítið annað að gera en að trilla mér upp í Vöku eða Sorpu samkvæmt þessari siðfræði tryggingalaga.

Upp vaknar spurning: Hvað hefði gerst ef ég hefði verið 9 árum eldri? Hefði þá verið boðið upp á 80% frádrátt frá örorkubótum vegna aldurs; maðurinn væri hvort eð er ónýtur, orðinn 65 ára gamall? Eða hefði tryggingarfélagið einfaldlega losnað að fullu við að greiða fullnýttum sjómanni bætur?

Mér finnst þetta vera hreint og klárt brot á mannréttindum. Og mig grunar að tryggingafélögin treysti á að þegar fólk er búið að tóra á slysadagpeningum langtímum saman ­ í mínu tilfelli eitt ár ­ sé fjárþörfin orðin slík að menn kyngi sjálfsvirðingunni og taki hvaða smánartilboði sem er. Raunar er það svo í mínu tilfelli að Sjóvá-Almennar hafa farið vægast sagt frjálslega með þá upphæð sem félagið átti að greiða mér í launatap samkvæmt staðgengilsreglu og útreikningar þess fullkomlega óviðunandi.

Í örorkumati mínu er tekið fram að ég muni aldrei framar verða fær um að stunda sjómennsku og hæpið að ég verði fær um að sinna öllu því sem uppá getur komið í sambandi við rútuakstur (ég var búinn að aka rútum hjá Guðmundi Jónassyni í 11 ár þegar ég álpaðist á sjóinn aftur). Samt er örorka mín ekki metin nema 15% læknisfræðileg og 10% varanleg. Einhvern veginn finnst mér ekki vera fullkomið samræmi í þessu.

Ég sætti mig ekki við þessi lög og er ákveðinn í að láta það ganga í gegnum allt dómskerfið. Og dugi það ekki skal það fyrir Mannréttindadómstólinn í Strassburg; það er næsta víst að þessi lögleysa stenst ekki skoðun þar. Hún fellur. En ég er hreint ekki einn um að vera óánægður með þessi nýju lög, eins og þú sem ráðherra tryggingamála veist áreiðanlega eins vel og ég. Þú fylgist auðvitað eins vel með þessum málaflokki og bankamálum og stóriðju. Í gangi er í dómskerfinu fjöldinn allur af málum sem kosta stórfé en hefði verið hægt að komast hjá með vitrænum og heiðarlegum lögum um slysabætur.

Og nú spyr ég þig, ráðherra tryggingamála, Finnur Ingólfsson: Finnst þér það vera sæmandi fyrir fiskveiðiþjóðina Ísland að sjómenn hennar ­ og raunar aðrir þegnar líka ­ skuli vera metnir og afskrifaðir á sama hátt og bílar, eða skrifstofuáhöld eða hvaða annað lausafé sem er? Ætlar þú að una svona lögum? Eða ætlar þú, í anda þess manngildismats sem þið flokkurinn þinn segist setja í öndvegi, að beita þér fyrir því að þarna verði gerð leiðrétting á? Þannig að andi laga um slysabætur verði sá að þau séu í raun ætluð til hagsbóta fyrir þá sem lenda í þeim hremmingum að slasast en ekki til að firra þau tryggingafélög greiðsluskyldu sem með glöðu geði hafa tekið á móti tryggingaiðgjaldi hinna slösuðu?

Og svaraðu mér nú á skiljanlegu máli Finnur, án málalenginga þannig að allir geti skilið.

Höfundur er fyrrv. sjómaður og bílstjóri.

Benedikt Brynjólfsson