NETIÐ
ÖRGUM FINNST ekkert eðlilegra en netið eða alnetið sé kallað internet á íslenzkri tungu. Fyrir nokkrum árum hefði líklega fáum dottið í hug að slík málglöp væru það sem koma skyldi. Ástæða þessa er líklega sú að síðari hluti orðsins endar á íslenzka orðinu net og til að stytta sér leið og vera dálítið alþjóðlegur hefur þeim sem nota internetið þótt tilhlýðilegt að gleypa þetta alþjóðlega framandi orð inter með húð og hári og svo er ætlazt til þess að þjóðin melti þetta framandi orð eins og ekkert sé. Samt dettur áreiðanlega engum í hug og líklega kæmist enginn upp með það að nota forliðinn inter í orðum eins og alþjóða-, fjölþjóða-, milliríkja- o.s.frv.; eða hvers vegna heita ekki alþjóðalög á íslenzkri tungu international lög? Nei, við höfum miklu betri orð eins og alþjóðalög, alþjóðaréttur, þjóðaréttur og hafa þau dugað vel fram að þessu. Þeir sem telja að forliðurinn inter- í samsetningunni internet dugi íslenzkri tungu ættu þá með sama rétti að beita sér fyrir því að talkerfi eða innanhússími heiti interphone, intersex sé notað um ánamaðka, interlift um lyftu á vörubílum og interview leysi samtöl eða viðtöl af hólmi.
Það er engin afsökun þótt net sé í enda þessa orðskrípis því að við höfum aldrei notað þennan forlið sem merkir víxl-, milli-, eða gagn- á íslenzku og þannig ætti netið að heita víxlnet eða millinet samkvæmt orðanna hljóðan. Alnet er að mörgu leyti ágætt orð yfir þetta fyrirbrigði, en netið ætti þó að duga; eða vefur.
Þótt við notum framandi orð um það sem kallað er mótorsport gegnir það allt öðru máli því að mótor er tökuorð sem hefur hlotið þegnrétt í íslenzkri tungu, svo og orðið sport. Mótorsport er þannig íslenzkt orð þótt það sé framandlegt að ýmsu leyti en sem tökuorð gagnast það með allt öðrum hætti en til að mynda internet. Mótor, þ.e. vél eða hreyfill, er gefið í Íslenskri orðabók sem vont mál að vísu, orð eða merking sem forðast ber í íslenzku en samt nothæft, sport er gefið í fyrrnefndri orðabók sem íþróttir eða skemmtilegt viðfangsefni, athugasemdalaust; þ.e. íslenzkt orð annmarkalaust. Orðið mótorbátur hefur fullan þegnrétt í tungunni þótt vélbátur standi okkur nær. Internet (tölvunet, skjánet; vefur) er af allt öðrum toga. Það er eins framandlegt og karlinn í tunglinu og á ekkert erindi inn í málsmenningarhefð okkar. Við ættum að reyna að útrýma því þótt erfitt muni verða, svo vinsælt sem þetta orðskrípi er meðal alls kyns sérfræðinga og internationalista, en tungan mun að sjálfsögðu hafna því að lokum og þá mun það verða almannarómur að farið hefur fé betra. Vonandi verður það sem fyrst.
Internet er hallærislegt orð í íslenzku; tilgerðarlegt; framandi. Það er allt og sumt(!)
"VENJULEG SPÍTALASTARFSEMI"
NGIR læknar á sjúkrahúsum hafa sagt upp yfirvinnu sinni til að knýja á um kjarasamninga, sem meðal annars dragi úr vinnuálagi þeirra og færi vinnutíma til samræmis við ákvæði vinnuverndartilskipunar Evrópusambandsins, sem gildir hér á landi.
Fram hefur komið að ungir aðstoðar- og deildarlæknar vinna 7090 tíma vinnuviku og ganga oft 26 klukkustunda vaktir. Morgunblaðið hefur áður lýst þeirri skoðun að þessi vinnutími nái ekki nokkurri átt. Hann stofnar bæði heilsu læknanna sjálfra og heilsu og öryggi sjúklinga þeirra í hættu.
Athyglisvert er að í Morgunblaðinu í gær viðurkennir framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur að það komi honum ekki á óvart að á bráðadeildum sjúkrahúsanna vinni ungir læknar langt umfram þá 90 yfirvinnutíma á mánuði (20 á viku!) sem kjarasamningar kveða á um, jafnvel 150200 tíma í mánuði.
Jafnframt segir lækningaforstjóri Ríkisspítalanna að unglæknarnir séu mjög mikilvægur þáttur í starfsemi spítalans. "Það er ekki hægt að halda uppi venjulegri spítalastarfsemi eins og við sjáum hana ef þeir vinna ekki sína yfirvinnu," segir hann.
Ef það er "venjuleg spítalastarfsemi" að þræla ungu fjölskyldufólki út í 90 eða jafnvel 150200 yfirvinnutíma á mánuði og láta örþreytta starfsmenn taka ákvarðanir, sem geta varðað líf og dauða, er sannarlega pottur brotinn í starfsemi spítalanna.