Gítarmeist-
arinn og
Tómasarrím
DJASS
Sunnusalur Hótels Sögu
TRÍÓ TÓMASAR R. EINARSSONAR/JAKOB FISCHER
Mánudagur 15. september kl. 21.
EITT af því sem verið hefur
aðal RúRek djasshátíðarinnar er að gefa íslenskum djassleikurum kost á því að leika með erlendum kollegum sínum. Á þessari hátíð eru fjögur slík samvinnuverkefni í gangi. Frank Foster með Stórsveit Reykjavíkur, Gunnlaugur Briem með þremur félögum sínum frá London, Björn Thoroddsen og Sigurður Flosason með tveimur Finnum svo og tríó Tómasar R. Einarssonar með danska gítarsnillingnum Jakob Fischer. Þeir tónleikar voru í Sunnusal Hótels Sögu sl. mánudagskvöld. Eitthvað hafði kynning tónleikanna misfarist því fleiri hefðu örugglega mætt hefði hingaðkoma Jakobs Fischers verið betur kynnt. Jakob hefur komið hingað þrívegis áður, tvisvar með Svend Asmussen og einu sinni með Jesper Lundgaard, og vakið óhemju hrifningu djassunnenda. Eitthvað kunna salarkynnin líka að hafa haft áhrif á aðsóknina. Hljómleikar á borð við þessa hafa verið haldnir í miðbænum á fyrri RúRek hátíðum með góðum árangri en Sunnusalur Hótels Sögu er dálítið útúr og auk þess ekki velþekktur og lítill djassbragur á honum.
Tríó bassaleikarans Tómasar R. Einarssonar er skipað honum og tveimur Mezzofortefélögum: Eyþóri Gunnarssyni píanista, sem einnig sló kongótrommur þetta kvöld, og Gunnlaugi Briem trommara. Á dagskrá voru verk eftir Tómas, sem flest voru frumflutt á tónleikum á djassklúbbnum Múlanum 21. mars sl. Þar var Óskar Guðjónsson saxófónleikari fjórði maður kvartettsins í stað Jakobs gítarleikara nú.
Tómas er fyrsti Íslandsdjassleikarinn til að vinna markvisst með erlendum djassleikurum hérlendis og hefur gefið út tvo hljómdiska þeirrar gerðar: Nýjan tón með danska trompetleikaranum Jens Winther og Ísandsför með bandaríska básúnuleikaranum Frank Lacy. Eyþór Gunnarsson lék á píanóið á báðum þeim diskum enda vandfundinn sá píanisti á norðurhveli jarðar er mótar fegurri hendingar í snarstefjun, sérí lagi er ljóðið slæst í för, auk þess sem hann svíngar "að helvede til". Sá er einnig aðall Jakobs Fischers og bestu ópusar Tómasar eru að mínu mati af ætt ballöðunnar einsog vel mátti heyra í Sunnusal er þeir félagar léku hið undurfagra lag hans: Minning. Samba hans í minningu Antonio Carlos Jobims og Ástarvísa hans norræn, sem var í ætt við útsetningar Ole Kock Hansens á íslenskum þjóðlögum, voru heldur ekkert slor, en lögin í hraðara tempói fundust mér ekki smella jafnvel saman. Þess ber þó að geta að Jakob gerði aðeins hálfs annars sólahrings stans á Íslandi og margt getur gerst við lengri kynni. Ég vona bara að Tómas þrói þessa samvinnu áfram og að við fáum að njóta hennar fullskapaðrar á geisladiski.
Vernharður Linnet