Búsetulandslag á Íslandi
Ef forfeður okkar hefðu
haft hrossið sem aðalhúsdýr, en ekki sauðkindina, liti Ísland allt öðru vísi út í dag, segir Anna Guðrún Þórhallsdóttir . Þá væru skógar án efa mun stærri og útbreiddari en nú er.
Á UNDANFÖRNUM áratugum hefur áhersla á umhverfis- og náttúruvernd vaxið hröðum skrefum um heim allan, samfara aukinni þekkingu. Í fyrstu fólst náttúruvernd nær eingöngu í sértækri friðun, það er friðun ákveðinna tegunda og/eða ákveðinna svæða. Mikil áhersla var lögð á að taka frá og friða ósnortin eða lítt snortin svæði og halda þannig eftir sýnishornum af ýmsum náttúrufarsgerðum fyrir komandi kynslóðir. Fljótlega varð mönnum ljóst að ekki einungis "ósnortin" náttúra var að hverfa víða í heiminum. Ýmsar náttúrufarsgerðir sem beinlínis höfðu verið skapaðar af manna völdum voru einnig á fallanda fæti, einkum vegna breyttrar landnýtingar af völdum breyttra búskaparhátta. Á Norðurlöndunum og í Bretlandi var náttúrufar víða að breytast mjög hratt, ekki vegna ofnýtingar heldur, þvert á móti, vegna vannýtingar og/eða breyttrar nýtingar. Í S-Noregi stóðu menn frammi fyrir því að með mikilli fækkun beitardýra tók skógurinn yfir á stórum svæðum. Beitarrjóðrin ("beitekolle") sem eru mjög tegundafjölbreytt vistkerfi voru óðum að hverfa og fjölmargar tegundir plantna og dýra sem áttu sitt búsvæði í beitarrjóðrunum eða á jaðarsvæðum þeirra voru að komast í útrýmingarhættu. Í Bretlandi var sama upp á teningnum. Limgerðin (hedges), sem einkenna landslagssýnina í Englandi og S-Wales og einnig eru sérstaklega tegundafjölbreytt vistkerfi, voru að hverfa vegna þess að ekki var lengur þörf á þeim til að aðgreina beitilönd bænda. Fjölmörgum tegundum, sem eiga sitt búsvæði í og við limgerðin, fækkaði og nokkrar þeirra komust í útrýmingarhættu. Í Skotlandi var gróðurfar skosku heiðanna að breytast, aðallega vegna minnkaðs beitarálags, og trjágróður farinn að stinga sér niður í mikilli óþökk skoskra náttúruverndarsinna. Náttúruvernd á Norðurlöndunum og í Bretlandi hefur því um nokkurt skeið ekki einungis snúist um að friða afmörkuð ósnortin svæði heldur og ekki síður snúist um að viðhalda svokölluðu kulturlandskap eða culture landscape . Í þessum löndum hefur einnig áherslan í náttúruvernd færst frá sértækum friðunaraðgerðum yfir í almennar og fyrirbyggjandi aðgerðir ásamt upplýsingamiðlun til almennings.
Hugtakið "kúltúrlandslag" hefur lítið sem ekkert komið inn í umræðuna um náttúruvernd hérlendis. "Kúltúrlandslag" hefur verið þýtt sem menningarlandslag, mannvistarlandslag, byggðarlandslag eða búsetulandslag. Í orðunum felst mismunandi skilningur á hinu erlenda hugtaki kulturlandskap eða culture landscape . Menningarlandslag, mannvistarlandslag og byggðarlandslag skilgreina hugtakið mjög þröngt með beina tilvísun í mannvistarleifar. Hugtakið búsetulandslag er víðara og nær frekar til áhrifa búsetunnar og landnýtingarinnar á landslag og náttúrufar.
Í nýendurskoðuðum lögum um náttúruvernd, lögum nr. 93/1996, er hugtakið "kúltúrlandslag" ekki að finna og í 1. gr. laganna er tekið fram að "lögin eigi að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt". Í 2. gr. er náttúruverndarsvæði skilgreint sem "friðlýst svæði, þ.e. náttúruvætti, friðlönd, þjóðgarða og fólkvanga, svo og svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá". Í seinni greinum laganna er fjallað m.a. um framkvæmd laganna og ná þau nær eingöngu til friðlýsinga ýmiskonar þar sem landsvæði eru friðuð sem mikilvægt er að "varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs" og gerð grein fyrir "hversu víðtæk friðunin er" (28. gr.). Ekki er gert ráð fyrir þeim möguleika í lögunum að ákveðin nýting geti ekki aðeins verið æskileg, heldur einnig nauðsynleg til að viðhalda ákveðinni landslagsgerð og/eða náttúrufari. Í heild sinni standa nýendurskoðuð lög um náttúruvernd á sama meiði og gömlu náttúruverndarlögin frá 1971, með aðaláherslu á sértækar friðunaraðgerðir. Mikilvægi þess að vinna að náttúruvernd með tilvísan í almenn ákvæði, t.d. hvað varðar alla nýtingu lands og malartekju, með fyrirbyggjandi aðgerðum í tengslum við alla skipulagsvinnu og með upplýsingum til almennings er ekki enn að finna í íslensku náttúruverndarlögunum. Breytingartillaga frá Hjörleifi Guttormssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur og Gísla S. Einarssyni sem gerði ráð fyrir að ákveðnar landslagsgerðir gætu notið almennrar verndar náði ekki fram að ganga, en hefði verið stórt skref í átt að nútímalegri löggjöf um náttúruvernd. Á síðasta Náttúruverndarþingi var lögð fram skýrsla fráfarandi Náttúruverndarráðs um stefnu í náttúruvernd. Þar kemur fram áhersla á almennar aðgerðir í náttúruvernd og bent á að brýnt sé að setja almennar lagareglur um landslagsvernd sem taki einnig til byggðalandslags. Þar kemur fram sú skoðun "að markmið landslagsverndar sé að nokkru leyti fólgin í því að varðveita hið upprunalega" og "að varðveita stórar landslagsheildir sem enn eru að mestu óskemmdar" og "að bæta úr mistökum 20. aldar". Að það geti verið eftirsóknarvert og jafnvel æskilegt að varðveita landslagsheildir sem hvorki eru upprunalegar né "óskemmdar", landslagsheildir sem myndu falla í flokk "kúltúrlandslags" kemur ekki fram í skýrslunni.
En er þá eitthvað til á Íslandi sem gætið fallið undir hugtakið "kúltúrlandslag"? Sé hugtakið skilgreint á svipaðan hátt og hjá nágrannaþjóðum okkar, er trúlega óvíða sem búsetulandslag er jafn útbreitt og á Íslandi. Áhrif landnýtingar er að finna um allt land, í mismiklum mæli. Sums staðar eru áhrifin þó hverfandi eins og á Hornströndum. Sauðfjárbeitin hefur þar að sjálfsögðu haft langvíðtækust áhrif og án sauðfjárbeitarinnar í gegnum aldirnar liti Ísland öðru vísi út í dag. Ekki einungis hefði landeyðingin orðið minni, og landið væri almennt betur gróið, heldur væri gróðursamsetningin allt önnur. Við hefðum t.d. mun meira af skóg- og kjarrlendi, birki og víði. En sauðfjárbeit er ekki það sama og t.d. hrossabeit. Ef forfeður okkar hefðu haft hrossið sem aðalhúsdýr, en ekki sauðkindina, liti Ísland allt öðru vísi út í dag. Þá væru skógar án efa mun stærri og útbreiddari en nú er. Og hvað ef íslensku svínin hefðu ekki dáið út á 15. öld? Stór svínastofn í landinu hefði breytt miklu um ásýnd landsins. Áhrif beitarinnar eru víðtækari og almennari en margan grunar og mjög lítið beitarálag þarf til að gerbreyta ásýnd landsins. Sjaldnast eru hins vegar óbeitt svæði til samanburðar því sem blasir við. Langtíma beitartilraun á Auðkúluheiði í A-Húnavatnssýslu sýndi að við nokkuð minnkaða sauðfjárbeit kom hávaxinn gulvíðir fljótlega inn í landið. Með þjóðargjöfinni 1974 var hólf upp af Þingvöllum og inn á Uxahryggi friðað að mestu fyrir beit. Fléttur eru farnar að þekja melana og mynda skán sem verður undirstaða frekari gróðurframvindu sem mun breyta ásýnd landsins.
Er því þá þannig varið að íslenskt búsetulandslag sé ekki eftirsóknarvert að varðveita að íslenskt búsetulandslag sé "land í tötrum" eða "land sundurgrafið skurðum"? Nei, því er alls ekki þannig varið. Vissulega er búsetulandslag okkar víða landslag ofbeitar í aldaraðir, þó sérstaklega síðustu 100 ára og landslag framræslu. En beit er ekki alfarið slæm, þvert á móti er hún víða nauðsynleg og bætandi eins og nágrannaþjóðir okkar hafa áttað sig á. Og hún getur líka verið nauðsynleg og bætandi á Íslandi ef rétt er að verki staðið. Alfriðuðu náttúrulegu birkiskógarnir okkar eru ekki sérlega aðlaðandi né sérlega aðgengilegir vegna þéttleika og þar fá fáar plöntur þrifist í dimmum skógarbotninum. Hæfilega beittur skógur er mun meira aðlaðandi, aðgengilegri og tegundafjölbreyttari eins og kom fram í tilraun í Hallormsstaðarskógi fyrir allmörgum árum. Friðunaraðgerða, sérstaklega fyrir beit, er vissulega þörf á stórum svæðum og eina raunhæfa lausnin til að ná upp gróðurþekjunni. En landnýtingin getur einnig verið af hinu góða eins fyrrnefnd dæmi sýna. Við þurfum því að viðurkenna að íslenskt búsetulandslag er ekki aðeins til, heldur getur einnig reynst nauðsynlegt að standa vörð um það.
Höfundur er landnýtingarfræðingur.
Anna Guðrún Þórhallsdóttir