Fallist á urðun í Fíflholtum
SKIPULAGSSTJÓRI ríkisins hefur
fallist á fyrirhugaða urðun sorps í Fíflholtum í Borgarbyggð með ákveðnum skilyrðum. Úrskurðinn má kæra til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 22. október 1997.
Með úrskurði frá í febrúar sl. felldi umhverfisráðherra úr gildi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá október 1996, þar sem fallist hafði verið á fyrirhugaða urðun sorps í Fíflholtum og Jöfra með skilyrðum. Í úrskurði ráðherra var farið fram á frekara mat á umhverfisáhrifum varðandi umhverfisáhrif malartekju vegna sorpurðunar og mögulegar mótvægisaðgerðir vegna votlendis.
Allt urðanlegt sorp
Fyrirhuguð framkvæmd felur í sér að urðað verði allt urðanlegt sorp af Vesturlandi á öðrum hvorum staðnum. Er jafnframt ráðgert að setja upp gámastöðvar við helstu þéttbýlisstaði á svæðinu, þar sem tekið verður á móti spilliefnum, brotajárni og öðrum úrgangi sem ekki verður urðaður. Áætlað er að til urðunar fari 79 þús. tonn af sorpi á ári fyrst í stað en stefnt er að því að minnka urðun með árunum. Er gert ráð fyrir að urðunarsvæðið endist í 20 ár og geti tekið við um 120 þús. tonnum.
Sigvatn hreinsað
Í úrskurði skipulagsstjóra segir að fallist verði á urðun sorps í Fíflholtum með þeim skilyrðum að sigvatn verði hreinsað í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar og tryggt að mengunaráhrifa af því gæti ekki þar sem því verður veitt í Norðlæk. Jafnframt að haft verði samráð við Náttúruvernd ríkisins um efnistöku til urðunar og að höfð verði samvinna við Náttúruvernd ríkisins um framræslu athafnasvæðis og við gerð áætlunar um endurheimt votlendis. Endurheimt verði að lágmarki jafnstórt votlendi og sorpförgunin spillir. Aðgerðir til að endurheimta votlendi hefjist samtímis framkvæmdum við urðunarstað.