"Eins og safarík lambasteik" "Hann er eins og safarík lambasteik," segir Sigrún Eðvaldsdóttir um Fiðlukonsert Tsjajkovskíjs, sem hún mun flytja á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í kvöld kl. 20. Orri Páll Ormarssonræddi við Sigrúnu og hljómsveitarstjórann, B.

"Eins og

safarík

lambasteik"

"Hann er eins og safarík lambasteik," segir Sigrún Eðvaldsdóttir um Fiðlukonsert Tsjajkovskíjs, sem hún mun flytja á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í kvöld kl. 20. Orri Páll Ormarsson ræddi við Sigrúnu og hljómsveitarstjórann, B. Tommy Andersson, sem stendur nú í fyrsta sinn frammi fyrir hljómsveitinni.

PJOTR Tsjajkovskíj samdi aðeins einn fiðlukonsert. Hafði hann hugsað sér að tileinka hann þekkt um fiðlusnillingi, Leopold Auer að nafni. Eftir að hafa skoðað konsertinn lýsti Auer því aftur á móti yfir að hann væri óspilandi. Það mat reyndist ekki rétt!

Konsertinn hlaut að vísu ekkert sérstakar viðtökur þegar annar fiðluleikari, Adolf Brodsky, frumflutti hann fáeinum árum síðar. Skjótt skipaðist hins vegar veður í lofti og í dag er almennt litið á hann sem einn "vinsælasta og ástsælasta fiðlukonsert allra tíma," eins og Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari tekur til orða en hún mun einmitt flytja verkið ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Háskólabíói í kvöld.

"Það er nautn að spila þennan konsert ­ hann er eins og safarík lambasteik," segir Sigrún sem lærði konsertinn fyrst fyrir Tsjajkovskíj-keppnina sem hún tók þátt í árið 1994. Í fyrra hélt hún síðan áfram að vinna verkið og flutti það aftur á fjáröflunartónleikum í Lundúnum í júní síðastliðnum. "Fyrir vikið er ég afslöppuð fyrir þessa tónleika því konsertinn situr í manni þegar maður er búinn að læra hann einu sinni. Ég hef hins vegar gætt þess að æfa hann ekki of mikið ­ hann verður að vera frjáls og ferskur."

Strembið sumar

Engu að síður hefur Sigrún þurft að halda sér við efnið, enda nýtur hún þess að "æfa og æfa og spila og spila". "Frá því ég kom heim frá Lundúnum, þar sem ég bý, um síðustu mánaðamót hef ég fengið að æfa í Tónlistarskólanum í Hafnarfirði. Kann ég Helga Bragasyni skólastjóra og hans fólki bestu þakkir fyrir aðstöðuna því ég held að það sé ekki sniðugt að æfa Tsjajkovskíj í blokkinni þar sem foreldrar mínir búa!"

Sigrún hefur haft í mörg horn að líta ytra upp á síðkastið og viðurkennir að sumarið hafi jafnvel verið einum of strembið. "Auðvitað er alltaf dýrmætt að fá tækifæri til að spila á tónleikum. Fimm tónleikar á einum og hálfum mánuði eru hins vegar í það mesta fyrir einleikara og undir það síðasta var ég andlega komin í þrot. Svona fer fyrir fólki sem getur ekki sagt nei! Ég lifði hins vegar af og nú er ég eldhress."

Meðal staða sem Sigrún lék á í sumar var Wigmore Hall í Lundúnum. Lætur hún hugann reika þegar þeir tónleikar berast í tal: "Þetta voru stærstu tónleikar lífs míns ­ allt gekk vel og áheyrendurnir voru æðislegir." Tónleikarnir hafa líka undið upp á sig, því sömu aðilar og buðu Sigrúnu að spila í Wigmore Hall hafa nú boðið henni að koma fram í Purcell Room í Lundúnum 16. desember næstkomandi. Þar mun hún velja efnisskrána sjálf, líkt og á flestum tónleikum sem hún heldur. "Það er mjög þægilegt að geta valið verkin sjálf en því fylgir auðvitað meiri ábyrgð."

Hljómsveitarstjóri á tónleikunum í kvöld verður Svíinn B. Tommy Andersson sem stjórnar nú Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn. Hefur Svensson, sem hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum Svíþjóðar, einkum lagt sig eftir flutningi nútímaverka og stjórnaði nýlega frumflutningi á óperunum Gunsmoke eftir Reine Jönsson og Il Prigioniero eftir Dallapiccola.

Andersson er hæstánægður með að vera kominn til Íslands en hann kveðst vera farinn að þekkja Sinfóníuhljómsveit Íslands ágætlega í gegnum geislaplöturnar sem BIS hefur gefið út á síðustu misserum. Þá ber hann íslenskum tónlistarmönnum sem hann hefur kynnst í Svíþjóð vel söguna. En stendur hljómsveitin undir væntingum, þegar í návígið er komið?

"Svo sannarlega. SÍ er mjög góð hljómsveit sem stenst fyllilega samanburð við bestu hljómsveitir á Norðurlöndum. Þá er ákaflega auðvelt að vinna með hljóðfæraleikurunum sem hafa greinilega jákvætt viðhorf til þess sem þeir eru að fást við. Það er synd að hljómsveitin skuli ekki eiga tónlistarhús sem er henni samboðið."

Jón Leifs í Stokkhólmi

Andersson er mikill áhugamaður um verk Jóns Leifs og í apríl á næsta ári mun hann stjórna flutningi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Stokkhólmi á Sögusinfóníunni. "Ég lít öðrum þræði á heimsóknina til Íslands sem lið í undirbúningi mínum fyrir þá tónleika en ég mun jafnframt nýta tækifærið til að kynna mér verk annarra íslenskra tónskálda eins og tími vinnst til. Allar þjóðir hafa gott af því að kynna sér verk nágranna sinna."

Í ljósi þessa skyldi engan undra að Andersson hafi áhuga á að snúa aftur til Íslands og stjórna sinfóníutónleikum þar sem sænsk tónlist yrði leidd til öndvegis. "Þeirri hugmynd verður hins vegar varla hrint í framkvæmd á næstunni en óhætt er að segja að Svíar beri sænsk tónskáld ekki á höndum sér um þessar mundir. Ef við flytjum ekki sjálfir verk tónskáldanna okkar, hverjir gera það þá? Vonandi stendur þetta þó til bóta."

Jafnframt verða flutt á tónleikunum í kvöld serenaða eða kvöldlokka op. 16 eftir Johannes Brahms, þar sem fiðlum er sleppt úr strengjasveit hljómsveitarinnar, og forleikur að leikritinu Rósamundu eftir Franz Schubert.

Morgunblaðið/Ásdís SIGRÚN Eðvaldsdóttir og B. Tommy Andersson verða í hlutverkum einleikara og hljómsveitarstjóra á tónleik um Sinfóníuhljómsveitar Ís lands í kvöld. Ég hef gætt þess að æfa konsertinn ekki of mikið ­ hann verður að vera frjáls og ferskur