Átök milli tveggja
menningarheima
London. Reuter.
FYRIR aðeins 18 árum felldu Walesbúar með miklum mun að koma
á fót sínu eigin þingi en skoðanakannanir benda til, að þeir muni svara því játandi í kosningunum í dag. Samt er búist við, að kjörsókn verði mjög lítil og sýnir það kannski best andúð margra Walesbúa á breytingum.
Þingið eða "Senedd" á velsku verður ekki nema hálfdrættingur á við það skoska og fær hvorki löggjafarvald né vald til að ákveða skatta. Er ástæðan sú, að í Wales takast á tveir menningarheimar, annars vegar sá velski og hins vegar sá enski, og þessi niðurstaða var tilraun Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, til að fara bil beggja.
Wales á sér ekki langa sögu sem sjálfstætt ríki og sjálfstæði landshlutans hefur aldrei varað lengi í senn. Það stóð síðast í tvö ár snemma á 15. öld í kjölfar uppreisnar undir forystu velsku þjóðhetjunnar Owain Glyndwr.
Fimmtungur velskumælandi
Eins og Skotar eiga Walesbúar sér sína menningu, skáldskap og tónlist og síðast en ekki síst tungumálið, velskuna, en hana talar þó ekki nema brot af íbúunum, sem eru um þrjár milljónir talsins. Um það bil 20% eru velskumælandi og búa flestir í fjöllunum í norðurhluta landsins. Aðrir tala ensku og líta á sig sem Breta og hafa áhyggjur af ákafri þjóðernisstefnu minnihlutans. Óttast þeir, að hann muni ráða mestu á nýja þinginu.
Þótt velskumælandi fólk sé í minnihluta hefur því gengið mjög vel við að ná sínu fram. Allar vegmerkingar og opinber skjöl eru á velsku og ensku og jafnvel á svæðum þar sem eingöngu býr enskumælandi fólk. Rekin er sérstök sjónvarpsstöð fyrir velskumælandi með stuðningi ríkisins og sagt er, að hvergi í víðri veröld njóti slík starfsemi meiri styrkja. Walesbúar hafa hins vegar aldrei haft þær stofnanir, sem annars einkenna sjálfstæð ríki. Skotar hafa sína eigin kirkju, sín eigin lög og seðlaútgáfu en Wales hefur ekkert af þessu.
Lítill stuðningur við ofbeldi
Andúð velskumælandi fólks á stjórninni í London jókst mjög á 18 ára valdatíma Íhaldsflokksins en þá voru ráðherrarnir, sem fóru með málefni Wales, hvorki velskir né velskumælandi en bein skæruliðabarátta fyrir heimastjórn heyrir að mestu sögunni til. Seint á áttunda áratugnum stóðu "Synir Glyndwrs" fyrir því að brenna sumarhús í eigu Englendinga í Wales og þeir báru einnig ábyrgð á bréfsprengjum, sem þeir sendu frá sér fram yfir 1990. Þessar baráttuaðferðir nutu þó aldrei mikils stuðnings meðal velskumælandi fólks og flokkur velskra þjóðernissinna, Plaid Cymru, hefur ekki náð nema um 10% atkvæða eða helmingi minna fylgi en flokkur skoskra þjóðernissinna.