Seinagangur
samstarfsnefndar
Í öllum tilvikum, segir
Ólafur Árni Helgason , hefur frammistaða samráðsnefndarinnar verið hörmuleg.
Í frétt í Morgunblaðinu 5. september sl. ber ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins það fyrir sig að dráttur hafi orðið á afgreiðslu kæru Samtaka iðnaðarins og Samiðnar vegna þess að reynt var að afla ítarlegra upplýsinga varðandi kæruna frá pólskum stjórnvöldum. Einnig nefndi ráðuneytisstjórinn að málið hefði ekki verið sérstaklega vel reifað í upphafi af hálfu SI og Samiðnar og kannski hefði nefndin betur vísað málinu frá og óskað eftir betri gögnum.
Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis útskýrði fjármálaráðuneytið ekki með fullnægjandi hætti hvers vegna meðferð kærunnar dróst í eitt og hálft ár. Jafnframt tók fjármálaráðuneytið það fram í bréfi til umboðsmanns að slíkt myndi ekki henda aftur. Útskýringar ráðuneytisstjórans lágu fyrir er umboðsmaður gaf út sitt álit, og eru því jafn ófullnægjandi og áður.
Varðandi vanreifun málsins er það að segja að SI vitnuðu til skýrslu nefndar, sem skipuð var af iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti til að gera úttekt á verkefnastöðu og framtíðarhorfum í skipasmíðaiðnaði, máli sínu til stuðnings. Í þeirri nefnd áttu m.a. sæti menn sem einnig skipuðu samráðsnefndina sem fjallaði um kæru SI. Verður að teljast í hæsta máta einkennilegt ef nefndarmenn telja eigin skýrslu ekki fullnægjandi. Jafnvel þó svo hafi verið er þá eitt og hálft ár ekki fullangur tími til að átta sig á að málið hafi verið vanreifað?
Að lokum er rétt að benda á að reglugerð nr. 351/1994 fjallar um undirbúning og framkvæmd álagningar og innheimtu undirboðs- og jöfnunartolla samkvæmt heiti sínu. Tilgangur þessarar reglugerðar er að koma í veg fyrir að erlendir aðilar á grundvelli undirboða eða með styrkjum skerði samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Samráðsnefndinni er falið vald til þess að rannsaka slík mál og komast að niðurstöðu. Í reglugerðinni er kveðið á um úrræði samráðsnefndar ef hagsmunaaðilar neita að veita nauðsynlegar upplýsingar innan hæfilegs frests, hindra aðgang að upplýsingum eða tefja verulega rannsókn máls. Samráðsnefndin getur þá tekið afstöðu til kæru eða tekið ákvörðun um aðgerðir til bráðabirgða á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Þess vegna skýtur það mjög skökku við ef samráðsnefndin lætur það tefja málsmeðferðina að hinn kærði aðili neitar að svara. Ekki er unnt að búast við að í hverju máli verði unnt að leggja á borðið játningu frá hinum kærða. Aðrar þjóðir hafa þann sið að taka afstöðu með sínum heimamönnum, en íslensk stjórnvöld vilja fremur hegða sér eins og saklaus áhorfandi, sem býður eftir að hinir brotlegu gefi sig fram í stað þess að gegna þeirri skyldu sinni að rannsaka málin á eigin spýtur.
SI hafa vísað þremur málum til samráðsnefndarinnar, en í öllum tilvikum hefur frammistaða nefndarinnar verið hörmuleg. Virðast ráðuneytismennirnir sem sitja í nefndinni hvorki átta sig á tilgangi reglugerðarinnar né hlutverki sínu sem nefndarmenn.
Því miður gerir þetta það að verkum að Samtök iðnaðarins sjá lítinn sem engan tilgang í að leita til samráðsnefndarinnar hér eftir enda mun okkur ganga erfiðlega að knýja fram þær játningar sem ráðuneytið vill að fylgi með kærum af þessu tagi.
Höfundur er héraðsdómslögmaður og starfar hjá Samtökum iðnaðarins.
Ólafur Helgi Árnason