ÁRLEGUR fundur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) hófst í Hong Kong í gær með því að gefið var út mat á stöðu efnahagsmála í heiminum. Spáir sjóðurinn auknum hagvexti án verðbólgu þrátt fyrir erfiðleika í Tælandi og Suð- Austur Asíu. Að mati sjóðsins mun hagvöxtur í heiminum nema 4,2% á þessu ári og 4,3% á því næsta.
Mat Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á efnahagsþróun í heiminum
Aukinn
hagvöxtur án verðbólguHong Kong. Reuter.
ÁRLEGUR fundur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) hófst í Hong Kong í gær með því að gefið var út mat á stöðu efnahagsmála í heiminum. Spáir sjóðurinn auknum hagvexti án verðbólgu þrátt fyrir erfiðleika í Tælandi og Suð- Austur Asíu. Að mati sjóðsins mun hagvöxtur í heiminum nema 4,2% á þessu ári og 4,3% á því næsta. Hagvöxtur í Tælandi muni verða hverfandi, vegna harkalegra aðhaldsaðgerða stjórnvalda þar.
"Við teljum enn að efnahagur heimsins muni vænkast bæði 1997 og 1998," sagði Michael Mussa, yfirhagfræðingur IMF á fréttamannafundi þar sem greint var frá spánni. "Sums staðar má búast við erfiðleikum, en ástæða er til að ætla að hagvöxtur verði mikill og verðbólga lág." Mussa spáði þó miklum samdrætti í Tælandi, 2,5% á þessu ári úr 6,4% í fyrra.
Efnahagsvandinn í Tælandi hófst með hruni gjaldmiðils landsins, bathsins, og skyggir á önnur viðfangsefni á fundi IMF og systurstofnunar hans, Alþjóðabankans. Stofnanirnar tvær leggja fram allt að 5,5 milljörðum Bandaríkjadala til 17,5 milljarða dala aðstoðar sem alþjóðlegar stofnanir veita Tælandi. Er þetta stærsta lán sem veitt hefur verið síðan Mexíkó var komið til aðstoðar 1995.
Þá segir að vænta megi vaxtar í hagkerfum Evrópu, og allt útlit væri fyrir að sameiginlega myntbandalagið, EMU, yrði að veruleika á tilsettum tíma. Stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi voru þó hvött til að ryðja úr vegi kerfislægum hagvaxtarhindrunum.
Spáð er 2,3% hagvexti í Þýskalandi á þessu ári og 2,8% á því næsta; í Frakklandi 2,2% í ár og 2,8% 1998; á Ítalíu 1,2% og 2,1%. Hægja mun á hagvexti í Asíuríkjum og fyrra mat IMF á væntanlegum vexti í Japan hefur verið endurskoðað og er spáin nú 1,1% aukning á þessu ári. Annars staðar í heiminum er útlitið harla gott, að mati IMF, og er það ekki síst mikill vöxtur í Bandaríjunum og Bretlandi sem er forsenda mats IMF. "Efnahagur Bandaríkjanna er sérlega góður," sagði Mussa. Að líkindum yrði að hækka vexti þar á næsta hálfa ári til þess að koma í veg fyrir þenslu.
Vandi Tælendinga, sem haft hefur áhrif á gjaldmiðla nágrannaríkjanna, gæti leitt til þess að sérfræðingar IMF í gjaldeyrismálum, ráðherrar og seðlabankamenn á fundinum í Hong Kong endurskoði stefnu ríkja heims í gjaldeyrismálum.