LÍKUR eru á að ný flóð auki enn á hörmungar fólks í Norður-Kóreu. Þetta kom fram í máli Christians Lemaires, fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Pyongyang, í gær. Lemaire sagði 40.000 vannærða verkamenn vinna að því berum höndum að byggja 40 km varnargarð úr mold og steinum meðfram austurströnd landsins.
Norður-Kórea Ekkert lát á hörmungum

Peking. Reuter

LÍKUR eru á að ný flóð auki enn á hörmungar fólks í Norður-Kóreu. Þetta kom fram í máli Christians Lemaires, fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Pyongyang, í gær.

Lemaire sagði 40.000 vannærða verkamenn vinna að því berum höndum að byggja 40 km varnargarð úr mold og steinum meðfram austurströnd landsins. Búist er við óvenjuháum sjávargangi á þessum slóðum um helgina og eru allar líkur taldar á að tilraun fólksins, til að verja hrísgrjónaakra sína, verði að engu. Nái sjávargangurinn að brjótast í gegnum stífluna mun hann dreifa salti yfir akrana og auka enn á matvælaskortinn í landinu.

Engin staðfesting á fullyrðingum um fjölda látinna

Lamaire sagði einnig að hvorki starfsmenn Sameinuðu þjóðanna né annarra óháðra hjálparstofnanna gætu staðfest fréttir þýska Rauða krossins og bandarísku hjálparstofnunarinnar World Vision um fjölda fórnarlamba hungurs í landinu. Talsmaður World Vision leiddi rök að því í byrjun vikunnar að allt að tvær milljónir manna hefðu farist úr hungri á árinu og þýski Rauði krossinn sagði allt að 10.000 börn látast á mánuði. Hann tók þó fram að tölur um fjölda látinna skiptu ekki meginmáli þar sem ástandið færi síversnandi og tölur sem ekki stæðust í dag myndu standast á morgun.

Ástandið í Norður-Kóreu hefur farið síversnandi undanfarin þrjú ár. Á árunum 1995 og '96 gengu mikil flóð yfir landið. Auk þess sem þau eyðilögðu uppskeru skildu þau eftir grjót og aur á ökrunum sem gera þá enn ónothæfa. Í júní og júlí á þessu ári eyðilögðu svo þurrkar mikinn hluta uppskerunnar en jafnvel í góðæri hefði hún ekki orðið nóg þar sem áburðarleysi hefur orsakað alvarlegan næringarskort í jarðvegi.