Lise Nörgaard er höfundur Matador-þáttanna vinsælu og myndarinnar Bara stelpa sem sýnd er í Háskólabíói. Hún var stödd hérlendis um helgina og skrapp á kaffiteríuna í Norræna húsinu með Hildi Loftsdóttur.

Engin

venjuleg

stelpa

Lise Nörgaard er höfundur Matador-þáttanna vinsælu og myndarinnar Bara stelpa sem sýnd er í Háskólabíói. Hún var stödd hérlendis um helgina og skrapp á kaffiteríuna í Norræna húsinu með Hildi Loftsdóttur .

HLÁTUR bergmálar um Norræna húsið. Ástæðan er einföld. Lise Nörgaard, höfundur Matador-þáttanna vinsælu, er að halda fyrirlestur og hefur frá nógu að segja, eins og hennar er von og vísa.

Hún er stödd hér á landi í tilefni þess að verið er að sýna kvikmyndina Bara stelpa eða "Kun en pige" í Hákólabíói til 24. þessa mánaðar. Myndin er byggð á tveimur sjálfsævisögum hennar. Þar segir frá baráttu Lise, sem varð blaðamaður 18 ára, þegar það þótti ekki við hæfi ungra kvenna af ríkum ættum.

Þegar Lise er beðin um viðtal tekur hún því góðfúslega. "En ég verð að fá mér sígarettu," segir þessi áttræða kona sem er svo falleg. Stefnan er tekin á kaffiteríuna.

Ekki alveg raunsönn

­ Hvernig líkar þér myndin?

"Mér finnst hún mjög góð, en ekki alveg sannleikanum samkvæm. Lesendur bókanna taka eftir að leikstjórinn Peter Schröder hefur breytt ýmsu og gert atburðina dramatískari. Hann veldur því fullkomlega og hefur leyfi til þess að breyta því sem þarf að breyta svo úr verði betri kvikmynd.

Okkur í fjölskyldunni fannst samt frekar leiðinlegt hvað hann gerir fyrri eiginmann minn heimskan. Hann var hæfileikaríkur, gáfaður og fyndinn. Faðir minn var líka öðruvísi en í myndinni. Hann hafði mikinn áhuga á leikhúsi og bókmenntum og það var í raun honum að þakka að ég fékk áhuga á bókmenntum og var sílesandi."

­ Finnst þér leikstjóranum takast að ná fram því sama og þú vilt segja með bókunum þínum?

"Já, sum atriði myndarinnar eru mjög raunsönn og vel gerð. Má nefna atriðin sem gerast í húsmæðraskólanum. Ein af skólasystrum mínum var eins og þessi íslenska stúlka. Hún dó reyndar ekki í þessum skóla, heldur í þeim næsta sem hún var send í."

Matador gaf ungum leikurum tækifæri

­ Finnst þér aðalleikkonan, Puk Scharbau, vera lík þér á yngri árum?

"Já, allir nefna hvað við séum líkar og ég sé af hverju. Hún er mjög góð leikkona. Ég hef gaman af því þegar ungar leikkonur verða frægar út á verkin mín. Það sama gerðist þegar við gerðum Matador- þættina. Við fengum til liðs við okkur þekkta leikara, en gáfum líka ungum leikurum tækifæri, sem urðu allir mjög þekktir eftir að þættirnir voru sýndir."

­ Voru Matador-þættirnir gerðir eftir bók sem þú skrifaðir?

"Nei, reyndar átti að verða bók úr hugmyndinni. Ég hafði þegar skapað allar persónurnar og gert uppkast að bókinni en hafði ekki haft tíma til að skrifa hana. Á sama tíma vantaði Danmarks Radio hugmynd að sjónvarpsþáttaröð. Leikstjóri þáttanna vissi að ég var að undirbúa þessa bók því hann hafði hugsað sér að gera kvikmynd eftir bókinni þegar hún kæmi út. Honum datt þá í hug að biðja mig um að selja þeim hugmyndina til að gera sjónvarpsþáttaröð, og það varð úr."

­ Er þáttaröðin líka byggð á endurminningum þínum?

"Matador-þættirnir eru byggðir á minningum mínum um þennan tíma og tíðarandann sem honum fylgdi en ekki um sérstakar manneskjur. Á þessum tíma skiptist samfélagið á þennan hátt; yfirstéttarfólk og þjónustufólk. Foreldrar mínir áttu stórt og fallegt hús eins og í kvikmyndinni, en ekki sama húsið. Það er svo stórt að í dag búa þar tvær fjölskyldur."

Lauk nýlega við kvikmyndahandrit

­ Var það í fyrsta skipti sem þú vannst fyrir sjónvarp eða kvikmyndir?

"Nei, ég hafði þegar gert nokkrar kvikmyndir, þar af tvær með Dirk Passer. Það var líka gerð kvikmynd eftir fyrstu bókinni minni "Med mor bag rattet". Nýlega vorum við Peter Bay að ljúka við handrit að nýrri mynd, en við unnum líka saman handritið að "Kun en pige". Það samstarf gekk hryllilega illa í fyrstu og Peter ávarpaði mig alltaf "Madame". Eftir að við vorum búin að blóta hvort öðru í sand og ösku urðum við bestu vinir og allt gekk miklu betur. Hann sagði mér þá frá hugmynd sem snýr að fjölskyldu hans. Við skrifuðum það handrit og það fer í tökur næsta vor."

­ Árin þín áttatíu draga ekkert úr vinnu hjá þér?

"Nei, alls ekki. Annars var ég mjög löt í sumar. Það var sannkallað Spánarveður í Danmörku svo ég stalst í sund á hverjum degi og gaf ritstörfunum frí."

Morgunblaðið/Kristinn LISE Nörgaard rithöfundur.

NÝFÆDD Lise í faðmi móður sinnar í kvikmyndinni Bara stelpa. MARGIR af bestu leikurum Danmerkur koma fram í myndinni Bara stelpa.

Myndin Bara stelpa er ekki alveg sannleikanum samkvæm