HVERT er hlutverk samninganefndar sveitarfélaganna? Er það ekki að gæta hagsmuna og hagsældar íbúa sveitarfélaganna? Hluti þess er að borga kennurum lífvænleg laun og tryggja börnum sem besta framtíðarmöguleika. Klingja e.t.v.
Samninganefnd sveit-arfélaga á villigötum
Ég lýsi yfir stuðningi við samninganefnd kennara, segir Sigurður Örn Leósson , og hvet til þess að allt verði lagt undir til að ná settum markmiðum.
HVERT er hlutverk samninganefndar sveitarfélaganna? Er það ekki að gæta hagsmuna og hagsældar íbúa sveitarfélaganna? Hluti þess er að borga kennurum lífvænleg laun og tryggja börnum sem besta framtíðarmöguleika. Klingja e.t.v. enn í eyrum þeirra hin fleygu orð fyrrum fjármálaráðherra á Alþingi: "Hverju skila kennarar?" Telja sveitarstjórnarmenn sig hafa fengið umboð fólksins til að láta kennara sjá um sparnað í útgjöldum sveitarsjóðanna með skammarlegum og niðurlægjandi launum?
Í Degi-Tímanum fimmtudaginn 28. ág. kom glöggt fram að almenningur telur laun kennara allt of lág. Viðmælendur töldu launakröfur kennara síst of miklar og nefndu mun hærri laun en kennarar hafa farið fram á. Almenningur hefur skilning á slæmum kjörum kennara og styður þá í baráttunni fyrir bættum kjörum. Fulltrúar hverra er þá samninganefnd sveitarfélaganna? Allavega ekki almennings. Byrjunarlaun kennara eru um 77 þús. Krafa kennara er um 110 þús. kr.
Sveitarfélögin bjóða kennurum 86 þús. í grunnlaun en leikskólakennurum 95 þús. Tilboðin endurspegla lítilsvirðingu í garð grunnskólakennara. Við þetta bætast hugmyndir um að taka af kennsluafslátt vegna aldurs. Skilaboðin til ungs hæfileikaríks fólks sem hefur hugsað sér að leggja kennslu fyrir sig eru ljós? Farið í eitthvað annað. Margir kennarar bundu vonir við það að við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna myndu kjör þeirra batna. Margir frestuðu því að skipta um starf vegna væntinga um betri kjör. Ljóst má vera að þær væntingar hafa brugðist. Það er engin furða þótt kennarar séu nú þegar farnir að segja upp störfum. Margir munu fylgja á eftir nú þegar slitnað hefur upp úr viðræðum og verkfallsboðun blasir við.
Framkoma samninganefndar sveitarfélaganna er ekki til þess fallin að bæta starfsumhverfi kennara eða laða réttindafólk til starfa. Reynt er að egna almenning til óvildar í garð kennara með því að tíunda að hækka þyrfti útsvar um 13% og útgjöld sveitarfélaganna um tvo milljarða ef ganga ætti að kröfum kennara. Helmingur kennaramenntaðs fólks er í öðrum störfum en kennslu og um 500 leiðbeinendur ganga í störf kennara. Karlar eru að hverfa úr stéttinni. Kennarar á Norðurlöndum og t.d. í Þýskalandi kenna um 24 stundir á viku og fá nær 200 þús. í laun. Foreldrar og samtök þeirra eiga að mótmæla harðlega framgöngu samninganefndar sveitarfélaganna. Hvernig stendur á því að ekkert heyrist í samtökum foreldra þegar kjaramál kennara eru til umfjöllunar? Ekki vantar viðbrögðin þegar umræður eru um einsetningu skólanna og auknar skyldur kennara.
Mikið hefur verið rætt um slaka menntunarstöðu íslenskra grunnskólanemenda í samanburði við aðrar þjóðir. Á að bæta stöðuna með því að halda launum kennara niðri og fjölga leiðbeinendum? Hafa menn ekki hugleitt hvers vegna það vantar svo marga menntaða kennara að skólunum? Ef menn bera saman útkomu skóla á samræmdum prófum eftir hlutfalli menntaðra kennara við skólanna þá sjá menn fylgni milli fjölda réttindakennara og góðrar útkomu nemenda. Ég hvet því samninganefnd sveitarfélaganna til þess að skoða sinn gang og huga að því hver vilji foreldra er. Ganga skal að kröfu kennara og hækka laun þeirra í áföngum til samræmis við það sem gerist hjá grannþjóðum okkar og laða þannig menntað og hæfileikaríkt fólk að skólunum.
Hvar er hinn mikli metnaður sem sveitarfélögin voru sögð hafa fyrir umbótum í skólamálum? Vitað er að metnaður sveitarfélaganna er misjafn. Það mun því líklega gerast eftir að verkfall er skollið á að einstaka sveitarfélög munu bjóða sér samninga með því að kennarar gangi úr KÍ og í starfsmannafélög bæjanna. Ef kennarar semja ekki frá sér réttindi í slíkum samningum þá munu kjör kennara batna í sumum sveitarfélögum. Efnaminni sveitarfélög munu sjá á eftir menntuðum og góðum kennurum. Hugtakið jafnrétti til nám mun víkja. Þau sveitarfélög sem gætu boðið kennurum mest og tryggt bestu menntunina myndu draga til sín fólk meðan fólksfækkun yrði í öðrum.
Til eru þeir foreldrar sem formæla kennurum fyrir eitt verkfallið enn, tíunda öll fríin og telja kjör þeirra viðunandi og telja ennfremur að það gildi einu hvort við skólana starfi leiðbeinendur eða menntað fagfólk. Þetta eru oftast foreldrar sem sýna menntun barna sinna lítinn áhuga.
Ég lýsi yfir stuðningi við samninganefnd kennara og hvet til þess að allt verði lagt undir til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið. Mikið er í húfi. Bregðist það nú má búast við flótta úr stéttinni og að margir hæfileikaríkir kennarar muni segja upp og hverfa til annarra starfa. Samninganefnd sveitarfélaganna þarf að snúa frá villu síns vegar ef forða á þjóðinni frá stórslysi í menntamálum.
Höfundur er kennari við Setbergsskóla í Hafnarfirði.
Sigurður Örn Leósson