RÚNAR Kristinsson lék allan leikinn með Lilleström í 1:0 sigrinum á Twente í Hollandi í UEFA- keppninni í fyrra kvöld. Hann lék á miðjunni og þótti standa sig vel. Lilleström á góða möguleika á að komast áfram þar sem liðið á heimaleikinn eftir.
RÚNAR Kristinsson lék allan
leikinn með Lilleström í 1:0 sigrinum á Twente í Hollandi í UEFA- keppninni í fyrra kvöld. Hann lék á miðjunni og þótti standa sig vel. Lilleström á góða möguleika á að komast áfram þar sem liðið á heimaleikinn eftir.SIGURÐUR Jónsson , fyrirliði Örebro, fékk að líta gula spjaldið í UEFA-leiknum gegn Rotor Volgograd í Rússlandi í fyrra kvöld. Örebro tapaði 2:0 en fékk þó ágæt færi í leiknum sem ekki tókst að nýta. Sigurður var besti leikmaður liðsins.
HLYNUR Birgisson og Arnór Guðjohnsen voru einnig í byrjunarliði Örebro. Arnóri var skipt út af á 65. mínútu.
HERMANN Hreiðarsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Crystal Palace í fyrra kvöld er liðið mætti Hull City í deildarbikarkeppninni. Hermann, sem lék allan leikinn, og félagar máttu sætta sig við tap, 1:0. Markið kom eftir mistök Hermanns í vörninni á 22. mínútu.
GUÐNI Bergsson , fyrirliði Bolton, lék allan leikinn með liðinu í bikarleiknum gegn Leyton Orient í fyrrakvöld. Bolton vann 3:1 á útivelli. Arnar Gunnlaugsson kom ekki inn á hjá Bolton.
LÁRUS Orri Sigurðsson var fyrirliði Stoke sem vann Burnley 3:0 í deildarbikarnum á útivelli í fyrra kvöld. "Þetta var nokkuð léttur leikur eftir að við náðum að gera fyrsta markið eftir hálftíma leik," sagði Lárus Orri.
GUÐMUNDUR Stephensen, landsliðsmaður í borðtennis, lék með OB í dönsku úrvalsdeildinni í fyrsta skipti um síðustu helgi. OB sigraði þá lið Esbjerg, 6:4. Guðmundur sigraði í einum einliðaleik en tapaði öðrum.
EGILL Már Markússon , flugumsjónarmaður og dómari, bæði í handknattleik og knattspyrnu, hugðist leggja handboltaflautunni í vetur. En hann var mættur í Víkina í gær og sagðist ætla að halda áfram enda væru dómarar allt of fáir.
AFTURELDING náðu mjög góðum leikkafla undir lok fyrri hálfleiks gegn Víkingi, skoruðu þá úr sjö sóknum í röð. Sóknarnýting liðanna var annars sú að Víkingar nýttu 51% sókna sinna en Mosfellingar 55%.
GUNNAR Berg Viktorsson , Eyjamaðurinn sem gekk til liðs við Fram, lék ekki með liðinu í gærkvöldi vegna bakmeiðsla.
SÓKNARNÝTING Stjörnunnar í síðari hálfleik var mjög góð, eða 18 mörk úr 23 sóknum sem er 78 prósent. Sóknarnýting Fram í fyrri hálfleik var ekki mikið síðri, 20 mörk úr 27 sóknum, sem er 74 prósent. Sóknarnýting Stjörnunnar í öllum leiknum var 64% á móti 57% hjá Fram.
BÚNAÐARBANKINN í Garðabæ bauð öllum Garðbæingum frítt á leik Stjörnunnar og Fram í gær. Það voru hins vegar ekki nema um 300 manns sem nýttu sér það. Aðgöngumiðar voru sendir inn á öll heimili í bænum.
DAMON Hill , fyrrum heimsmeistari í formulu 1 kappakstri, ekur ekki áfram fyrir lið Arrows á næsta keppnistímabili. Mika Salo frá Finnlandi hefur verið ráðinn í hans stað, en Hill hefur viljað losna frá Arrows.
LÍKLEGT er talið að Hill skrifi undir samning við Prost liðið franska sem fyrrum heimsmeistari Alain Prost er keppnisstjóri hjá. Er sagt að Hill fái fimm milljónir punda í laun á næsta ári, en Jordan og Benetton hafa einnig borið víurnar í hann, eftir að hann hafnaði boði frá McLaren.