BRESKAR rokkstjörnur, allt frá Elton John til Paul McCartney, sameinuðu krafta sína á mánudaginn var á góðgerðartónleikum til styrktar fórnarlömbum eldgossins á eyjunni Montserrat. Söfnuðust ríflega 70 milljónir króna.

Ágóði af

risatónleikum

til Montserrat

BRESKAR rokkstjörnur, allt frá Elton John til Paul McCartney, sameinuðu krafta sína á mánudaginn var á góðgerðartónleikum til styrktar fórnarlömbum eldgossins á eyjunni Montserrat. Söfnuðust ríflega 70 milljónir króna.

Frumkvöðullinn var George Martin, fyrrverandi bakhjarl Bítlanna, og hafa ekki komið fleiri stórstjörnur fram á einum og sömu tónleikunum síðan "Live Aid"-tónleikarnir voru haldnir árið 1985.

Allir tónlistarmennirnir höfðu tekið upp í hljóðveri Martins á eyjunni, en það er nú á kafi í ösku. Þeir þáðu engin laun fyrir að koma fram á tónleikunum.

Martin sagðist ætla í eigin persónu til eyjarinnar til þess að ganga úr skugga um að fjármununum yrði vel varið. 4.500 miðar á tónleikana seldust upp á 90 mínútum og rúmlega 40 lönd hafa keypt útsendingarréttinn.