Heiftúðugar deilur
um málverk af
barnamorðingja
London. Reuter, The Daily Telegraph.
ÁKVÖRÐUN um að málverk af barnamorðingjanum illræmda, Myru Hindley, verði á sýningu á verkum eftir unga breska listamenn hefur vakið miklar deilur á Bretlandi og eru margir mjög hneykslaðir.
Konunglega breska akademían heldur sýninguna, sem gengur undir nafninu "Stórviðburður" (Sensation) og verður opnuð í dag. Norman Rosenthal, einn af helstu embættismönnum akademíunnar og skipuleggjandi sýningarinnar, sagði að listin væri aldrei siðlaus.
Siðlaus list ekki til?
"Það er ekki til neitt, sem heitir siðlaus list," sagði hann. "Að minni hyggju er öll list siðleg."
Félagar í akademíunni reyndu í síðustu viku að koma í veg fyrir að málverkið, sem er eftir Marcus Harvey, yrði á sýningunni, en tókst ekki. Málverkið er gert eftir lögreglumynd af Hyndley. Það var gert með því að þrykkja förum eftir eftir barnslófa á léreftið.
Hindley var dæmd í lífstíðarfangelsi árið 1966 fyrir að myrða fimm börn. Fundust lík nokkurra þeirra grafin á afskekktri heiði í norðurhluta Englands og fékk Hindley þá viðurnefnið "heiðamorðinginn". Hindley framdi morðin ásamt elskhuga sínum, Ian Brady, og vöktu þau mikla hneykslan og reiði á Bretlandi. Börnin höfðu verið pyntuð og tóku Hindley og Brady glæpi sína upp á myndband.
Morðingjar, sem dæmdir eru í lífstíðarfangelsi á Bretlandi, sitja sjaldnast inni lengur en í 25 ár, en Michael Howard, fyrrverandi innanríkisráðherra, gaf árið 1994 út tilskipun um að Hindley skyldi aldrei látin laus.
Fordæming morðingjans
Hindley hefur sjálf fordæmt málverkið. Hún kveðst vera breytt manneskja.
Hindley er ekki ein um að hafa gagnrýnt það að verkið sé á sýningunni. Winnie Johnson, móðir Keiths Bennetts, sem var meðal fórnarlamba Hindleys, sagði að akademían væri "sjúk og ógeðsleg" fyrst hún neitaði að taka verkið af sýningunni og skoraði á fólk að sniðganga hana.
Rosenthal hefur áður sett upp sýningar fyrir akademíuna og hafa þær margar gengið vel. Hann sagði að hefði verið ákveðið að taka myndina af sýningunni hefði hann íhugað að ganga úr akademíunni. Ákveðið hefði verið að hafa myndina með vegna þess að hún væri kraftmikil.
Á sýningunni verða 110 verk eftir hreyfinguna, sem kennd hefur verið við "unga breska listamenn". Damien Hirst er meðal þeirra, sem eiga verk á sýningunni, og er hann sennilega þekktasti fulltrúi hreyfingarinnar. Verk Harveys er ekki það eina sem hefur verið gagnrýnt. Þar verður einnig verk eftir Jake og Dinos Chapman, sem sýnir tvær gínur með sprengd klof og kynfæri karlmanns í stað munna og nefja. Mynd, sem nefnist "Heilög Guðsmóðir" eftir Chris Ofili hefur einnig vakið deilur. Á henni er María mey umkringd klámfengnum myndum af kynfærum.
Spurningalistar á sýningunni
Ákveðið hefur verið að afhenda gestum á sýningunni spurningalista þar sem meðal annars verður innt eftir því hvort þeir séu hneykslaðir á einhverju verkanna og hvort rétt sé að Konunglega akademían sýni listaverk þótt það veki hneykslan og fólki geti ofboðið.
Reuter KONA virðir fyrir sér málverk af barnamorðingjanum Myru Hindley, sem verður meðal verka á sýningunni "Stórviðburður". Myndin hefur vakið miklar deilur, ekki síst vegna þess að hún er gerð af mörg hundruð förum eftir barnslófa. Sýningin verður opnuð í London í dag.