Eigum erfitt en skemmti-
legt verkefni framundan
Eyjamenn mæta þýska liðinu Stuttgart í Evrópukeppni bikarhafa á Laugardalsvelli í kvöld og
hefst leikurinn klukkan 18.30. Steinþór Guðbjartsson fylgdist með undirbúningi liðanna.
Um er að ræða fyrri viðureign liðanna í 1. umferð en ÍBV sigraði Hibs frá Möltu í tveimur leikjum í forkeppninni.
"Þetta er annað og mun meira verkefni," sagði Hlynur Stefánsson, fyrirliði Eyjamanna, við Morgunblaðið í gær. "Stuttgart er eitt af betri liðunum í þýsku deildinni sem er með þeim hæst skrifuðu í heimi. Því eigum við erfitt verkefni fyrir höndum en jafnframt skemmtilegt og ég hef fulla trú á að við getum strítt þeim í Laugardalnum."
Eyjamenn hafa átt mikilli velgengni að fagna í sumar og aðeins tapað einum leik. "Árangurinn hjálpar okkur," sagði Hlynur. "Við erum fullir sjálfstrausts og förum í leikinn með því hugarfari að reyna að sigra því við teljum möguleika á því á heimavelli þó það verði þrautin þyngri úti. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því að margir þættir verða að ganga upp til að úrslitin verði okkur hagstæð. Í fyrsta lagi verðum við að sína toppleik. Í öðru lagi verða heilladísirnar að vera á okkar bandi og í þriðja lagi getur hugsanlegt vanmat mótherjanna gagnast okkur. Í þýskum fjölmiðlum hefur okkur verið líkt við 3. deildarlið í Þýskalandi en við viljum sýna í verki að sú samlíking á ekki við rök að styðjast. Samt sem áður verðum við að hafa hugfast að við erum að fara að leika við atvinnumenn sem stefna á Evrópumeistaratitil en helsta markmið okkar er að gera eins vel og við getum og koma með reisn frá leiknum."
Yfirleitt vilja félög leika fyrst á útivelli í Evrópukeppni og samkvæmt drættinum átti fyrri leikurinn að fara fram í Stuttgart en Eyjamenn óskuðu eftir að fá fyrst heimaleik. Þýska liðið varð við þeirri bón. "Þegar dregið var lá fyrir að við ættum erfiða dagskrá fyrir höndum í Íslandsmótinu og með álagið í huga baráttuna í deildinni í hámarki fannst okkur betra að spila fyrst heima frekar en að fara í erfitt ferðalag á milli "úrslitaleikja" í Íslandsmótinu," sagði Hlynur.
Sem fyrr segir verður leikurinn á Laugardalsvelli annað kvöld. "Vissulega hefði ég viljað spila í Eyjum því þar hefðum við frekar getað strítt þeim en Laugardalsvöllur er líka ágætis kostur, því þar fáum við fleiri áhorfendur. Herjólfur býður upp á mjög hagstæðar pakkaferðir og við eigum góða stuðningsmenn á Reykjavíkursvæðinu."
Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá þýsku sjónvarpsstöðinni ARD í Þýskalandi og hefur þegar vakið mikla athygli. "Þessi leikur er mikilvægur fyrir okkur sem lið og eins fyrir einstaka leikmenn," sagði Hlynur. "Útsendarar frá mörgum erlendum liðum fylgjast með og margir í liðinu stefna á atvinnumennsku. Þetta er gullið tækifæri fyrir þá að sýna sig og sanna."