ÞEGAR þetta er ritað hefur slitnað upp úr viðræðum á milli kennarafélaganna og Launanefndar sveitarfélaga. Boðaður hefur verið undirbúningur verkfalls sem muni skella á 27. október næstkomandi. Satt að segja hefðum við ekki getað trúað því að annað eins ætti eftir að gerast eftir aðeins tveggja og hálfs árs hlé frá síðasta verkfalli.
Við segjum upp

Við höfum ákveðið, segja þau Kristín Jóhannsdóttir og Úlfar Snær Arnarson , að taka þann kostinn að segja upp.

ÞEGAR þetta er ritað hefur slitnað upp úr viðræðum á milli kennarafélaganna og Launanefndar sveitarfélaga. Boðaður hefur verið undirbúningur verkfalls sem muni skella á 27. október næstkomandi.

Satt að segja hefðum við ekki getað trúað því að annað eins ætti eftir að gerast eftir aðeins tveggja og hálfs árs hlé frá síðasta verkfalli. Það skilaði sáralitlum kjarabótum sem voru dýru verði keyptar ef litið er til fjölgunar vinnudaga sem samningarnir höfðu í för með sér.

Hvað er til ráða? Oft hefur verið hamrað á því að með verkfalli taki kennarar skjólstæðinga sína í gíslingu, verkfallsvopnið bíti nemendur hvað harðast. Siðferðilega sé verkfallsleiðin ófær vilji kennarar halda stöðu sinni sem ábyrgir uppalendur og sem fagleg stétt. En hverjir eru það sem bera raunverulega ábyrgð aðrir en stjórnvöld sjálf?

Að launanefnd sveitarfélaganna skuli fara fram á það í kjaraviðræðum að kennarar samþykki aukna vinnu og afnám ýmissa réttinda áður en farið er að ræða launakröfur er ekkert annað en fíflaskapur. Nefnt er að auka kennslu hjá þeim sem hafa mesta kennsluskyldu um 2,5 tíma á viku, fella niður kennsluafslátt sem "gamlir" kennarar eru búnir að vinna sér inn eftir áratuga vinnu og skerða þann tíma sem kennarar hafa haft til endurmenntunar. Hvílík kostaboð í byrjun viðræðna!

Við undirrituð stöndum nú frammi fyrir tveim kostum og báðum slæmum. Annar kosturinn er að fara í verkfallsaðgerðir með tilheyrandi fórnum en hinn er sá að segja starfi okkar lausu og hverfa til annarra starfa. Eftir þriggja til fjögurra ára háskólanám sem undirbjó okkur fyrir kennarastarfið og eftir að hafa átt farsælt starf sem kennarar þá blasir nú veruleikinn við. Kennarar lifa ekki á faglegheitunum einum saman. Því höfum við ákveðið að taka þann kostinn að segja upp.

Nemendur okkar eru þessa dagana m.a að lesa um verkalýðsbaráttu og styrjaldir. Líkt og Versalasamningurinn eftir fyrri heimsstyrjöld átti að binda enda á öll stríð, þá bjuggust kennarar í síðasta verkfalli við því að eftir sex vikna langa baráttu yrði loks bundinn endi á bág kjör kennara. Ekki hélst friður í Evrópu lengi og nú er enn á ný blásið til verkfallsbaráttu í herbúðum kennara á Íslandi.

Samkennurum okkar og stéttarfélagi óskum við alls hins besta í komandi baráttu.

Höfundar eru kennarar í Laugalækjarskóla, Reykjavík.

Úlfar Snær Arnarson

Kristín Jóhannsdóttir