Gamanmynd um
Íslendinga
fyrir Íslendinga
PERLUR og svín leikstjórans Óskars Jónassonar
verður frumsýnd 9. október í Stjörnubíói. Skartar myndin mörgum af fremstu leikurum þjóðarinnar, m.a. Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Eddu Björgvinsdóttur og Ingvari Sigurðssyni. Enda er Perlur og svín gamanmynd um Íslendinga fyrir Íslendinga, að sögn Ólafíu Hrannar. En hvers konar hlutverk fást þessir leikarar við?
Ólafía Hrönn segir að sú manngerð sem hún leiki í Perlum og svínum hafi marga góða og fallega eiginleika; endalaus bjartsýni og óþrjótandi þolinmæði lýsi henni best. Auk þess hafi hún einfalda lífssýn, - hún sækist eftir friði og ró.
"Það var hins vegar pínu snúið að fara í hafmeyjarbúninginn," segir hún og hlær. Hún bætir við alvarleg í bragði að sögusagnir um að sporðurinn hafi verið búinn til í tölvu séu algjörlega úr lausu lofti gripnar.
Edda í leðurbúningi
Edda Björgvinsdóttir þurfti að taka á honum stóra sínum við tökur á Perlum og svínum, sem voru strembnar á köflum. Hún þurfti til dæmis að hanga í leðurbúningi í lengri tíma úr byggingakrana í gamalli lýsisbræðslu og segir hún leðurbúninginn alls ekki hafa verið þægilegan til lengdar. Lyktin í bræðslunni er líka nokkuð sem hún gleymir seint.
Aðspurð hvort atriðið sé lýsandi fyrir Perlur og svín svarar Edda: "Nei, kannski ekki fyrir myndina, en ef til vill lýsandi fyrir persónuna sem ég leik." Hún segir muninn á sjálfri sér og konunni sem hún leikur vera gamansemi. "Hún er gjörsamlega sneidd öllum húmor. Ég nota hins vegar húmorinn í tíma og ótíma til að lífga upp á tilveruna og hjálpa mér í gegnum súrt og sætt," segir Edda og þvertekur fyrir að leðurbúningurinn sé úr eigin safni.
Ingvar leikur á rússnesku
Í Perlum og svínum leikur Ingvar Sigurðsson rússneskan sjómann að nafni Viktor sem er með mafíósatilhneigingar. Um Viktor segir Ingvar: "Hann er hetjan um borð, karl í krapinu, og tekur því hreint ekki vel ef einhver reynir að svindla á honum."
Einkunnarorð Viktors eru glasnost, perestrojka og demókratía og þurfti Ingvar að læra rússnesku fyrir hlutverkið: "Upphaflega átti ég bara að bulla eitthvað, en svo var ákveðið að ég lærði örlitla rússnesku og þá varð ekki aftur snúið."
Allt sem Viktor segir er á "alvöru" rússnesku. "Það er mjög gaman að fá að leika á rússnesku," segir Ingvar. "Það felst svo mikil áskorun í að leika á öðru tungumáli, þó ég kunni málið ekki nógu vel til þess að segja eitthvað um útkomuna."
HAFMEYJAN Ólafía Hrönn.
EDDA í leðurbúningnum.
INGVAR í rússneskum stellingum.