Grænlendingar
fá stjórn náttúruauðlinda sinna
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.
Átján ára deilumál Grænlendinga
og Dana um stjórn náttúruauðlinda, einnig auðlinda í landgrunninu, hefur nú verið til lykta leitt. Samkvæmt samningi, sem Lars Emil Johansen, formaður grænlensku landstjórnarinnr, og Svend Auken, orku- og umhverfisráðherra, gerðu á mánudag munu Grænlendingar frá og með 1. janúar sjálfir fara með stjórn þeirra, en hugsanlegum arði af nýtingu þess og stjórnmálalegri yfirstjórn verður eftir sem áður skipt jafnt milli beggja landanna.
Samningurinn hefur í för með sér að frá og með áramótum skiptir grænlenska landstjórnin beint við þá aðila, sem sækja um leyfi til olíuleitar og annarra kannana á nýtingu landgrunnsins. Leyfin verða afgreidd á Grænlandi og grænlenska heimastjórnin ber ábyrgðina á afgreiðslunni. Johansen lýsti því yfir að lokinni undirritun samningsins að þetta væri einn af hápunktunum á stjórnmálaferli sínum og sagði að samningurinn bæri vott um gagnkvæmt traust milli landanna.
Grænlendingar fengu aðstoð danskra yfirvalda til að koma á stofn auðlindaskrifstofu fyrir þremur árum og hefur hún síðan afgreitt umsóknir ásamt danska orku- og umhverfisráðuneytinu. Auðlindaskrifstofa ráðuneytisins verður að hluta flutt til Grænlands, en enn er óljóst hvort starfsmenn hennar flytjast með, eða kjósa að hverfa að öðrum störfum. Eins og er mun hin nýja grænlenska yfirstjórn mest snúast um olíuleit á landgrunninu, sem þykir lofa góðu, en einnig beinist athyglin að nýtingu zinks, gulls og nú síðast hugsanlega demanta.