ÞÓRDÍS Zoëga, húsgagna- og innanhússarkitekt, hefur verið valin til að ljúka hönnunhúsgagna í móttökusal Höfða áfyrstu hæð, en tillaga hennar umhönnun húsgagnanna var valin úrhópi fjögurra tillagna í samkeppnisem Reykjavíkurborg efndi til fyrrá þessu ári. Í niðurstöðudómnefndar segirm.a.
Þórdís Zoëga vinnur samkeppni um hönnun húsgagna í Höfða

Nútímaleg hús-

gögn og listræn

ÞÓRDÍS Zoëga, húsgagna- og innanhússarkitekt, hefur verið valin til að ljúka hönnun húsgagna í móttökusal Höfða á fyrstu hæð, en tillaga hennar um hönnun húsgagnanna var valin úr hópi fjögurra tillagna í samkeppni sem Reykjavíkurborg efndi til fyrr á þessu ári.

Í niðurstöðu dómnefndar segir m.a. að í tillögu Þórdísar sé leitast við að tvinna saman í eina heild, einkenni húsgagna frá því tímabili er Höfði var byggður, og nútímalegar áherslur í hönnun nytjahluta. Þá sé tillagan vel unnin jafnt í hagnýtu sem listrænu tilliti og feli í sér vandaða lausn á flestum þeim áhersluatriðum sem skilgreind voru í verkefnalýsingu.

Reykjavíkurborg auglýsti í maí sl. eftir aðilum til að taka þátt í forvali vegna hugmyndasamkeppni um hönnun húsgagna í móttökusal Höfða, en þetta er í fyrsta sinn sem borgin efnir til slíkrar samkeppni. Sérstök dómnefnd valdi fjóra aðila, úr þeim 12 manna hópi sem sendi inn umsóknir í forvalinu, til að vinna að tillögum að húsgögnum í Höfða. Þeir voru: Erla Sólveig Óskarsdóttir, húsgagna- og iðnhönnuður, Guðrún Margrét Ólafsdóttir og Oddgeir Þórðarson innanhússarkitektar, Kristinn Brynjólfsson innanhússarkitekt og Þórdís Zoëga húsgagna- og innanhússarkitekt. Hverjum þátttakenda voru greidd föst laun kr. 150.000 fyrir tillögugerðina.

Kostnaður hönnunar og framleiðslu um 3,5 milljónir

Í verkefnalýsingu lagði dómnefnd m.a. áherslu á að hin nýju húsgögn féllu vel að aldri og virðuleik hússins, hlutföllum rýmisins og þeim húsbúnaði sem fyrir er í húsinu. Fyrrnefndir fjórir keppendur skiluðu inn tillögum 8. september sl. og valdi dómnefndin tillögu Þórdísar Zoëga.

Miðað er við að útboðsgögn og teikningar liggi fyrir í lok þessa árs, en áætlað er að húsgögnin verði tekin í notkun á næsta ári. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við hönnun og framleiðslu húsgagnanna í móttökusalnum verði á milli 3 og 4 milljónir króna. Morgunblaðið/Kristinn INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir borgarstjóri skoðar tillögur Þórdísar Zoëga innanhússarkitekts.

TILLAGA Þórdísar Zoëga að nýjum húsgögnum í móttökusal Höfða.