SAGAN af Músa-mús er eftir Moshe Okon og Sigrúnu Birnu Birnisdóttur. Myndir gerði Sara Vilbergsdóttir og útgefandi er Mál og menning. Bókin hefur verið send forlögum í Ísrael og í Bandaríkjunum og í október verður hún kynnt á bókastefnu í Frankfurt.
Útgáfa nýrrar barnabókar, Sagan af Músa-mús

Hetjan með litla hjartað

SAGAN af Músa-mús er eftir Moshe Okon og Sigrúnu Birnu Birnisdóttur. Myndir gerði Sara Vilbergsdóttir og útgefandi er Mál og menning. Bókin hefur verið send forlögum í Ísrael og í Bandaríkjunum og í október verður hún kynnt á bókastefnu í Frankfurt.

Músa-mús er lítill músastrákur sem bíður einn heima á meðan mamma hans bregður sér í búðina eftir osti. Hann sannfærir sjálfan sig um að hann sé ekkert hræddur og að hann geti vel verið einn í svolitla stund þrátt fyrir stöðuga ógn af því að kötturinn láti sjá sig.

"Í sögunni af Músa-mús er spurt hvort manni leyfist stundum að vera hræddur," segir Moshe. Hann kemur frá Ísrael og er lögfræðingur með meistaragráðu í afbrotafræði en Sigrún Birna er blaðamaður og rithöfundur. "Fyrir nokkrum árum fjölluðu ísraelskir fjölmiðlar mikið um hvort það væri við hæfi að hermenn grétu við útfarir félaga sinna. Mörgum þótti það ekki samræmast hetjuímynd hermannsins að sýna tilfinningar," segir hann.

"Eins og börn í Ísrael eru hvött til að vera hetjur er börnum á Íslandi sagt að vera stór og dugleg," segir Sigrún. "Músa-mús bregst við þessu á þann hátt að hann viðurkennir ekki ótta sinn. Hann stendur sig þó ágætlega og ræður fram úr ýmsum vandamálum."

Myndirnar segja hálfa söguna

Moshe sagði Sigrúnu Birnu frá hugmynd sinni að sögunni og í samvinnu þeirra þróaðist sagan sem Sigrún skrifaði síðan á íslensku. Það sem m.a. vakti fyrir þeim var að setja saman sögu þar sem myndskreytingar væru hluti frásagnarinnar. Textinn lýsir hugsunum Músa-mús á meðan myndirnar skýra frá raunverulegri atburðarás.

Þegar sagan var fullunnin sendu þau Sigrún og Moshe hana frá Ísrael, þar sem þau bjuggu, til Íslands og þar komst textinn í hendur Söru Vilbergsdóttur, myndlistarmanns og kennara, sem segir það hafa verið gamlan draum sinn að myndskreyta barnabækur. Hún segist oft hafa verið ósátt við vandlega unnar og ofurraunsæjar myndir í barnabókum. "Ég er ekki frá því að ég hafi notið góðs af barnanámskeiðum sem ég hef kennt í fjölda ára og lært af vinnubrögðum barnanna," segir Sara. "Ég veit líka hvað örvaði mig til myndsköpunar sem barn og ákvað því að myndirnar skyldu vera mjög litríkar og áferð þeirra gróf. Mér finnst oft vera lögð of mikil áhersla á tæknibrögð í myndskreytingum barnabóka sem gerir það að verkum að börnin hugsa með sér að svona geti þau aldrei gert og missi jafnvel áhuga á að reyna."

Músa-mús og Eplasneplar á hebresku

Höfundarnir hafa ekki enn fengið staðfest að Sagan af Músa mús verði gefin út í Ísrael en telja allar líkur á að svo verði. Þau segja að það séu tugir barnabókaforlaga í Ísrael og að þar séu hundruð barnabóka gefin út ár hvert. Moshe segir að söguna megi auðveldlega þýða á ensku en auk þess sem hebreska stafrófið sé lesið frá hægri til vinstri og þar af leiðandi þurfi að spegla myndunum hafi þau hugsað sér að gera smávægilegar breytingar á þeim. Þannig verði gönguskóm pabba músar skipt út fyrir hermannaklossa sem leynist undir hjónarúmi á hverju heimili í Ísrael. "Íslenskir feður ganga á fjöll en í Ísrael þekkja allir krakkar hermannaskóna því feður þeirra gegna herskyldu í allt að mánuð á ári," segir Moshe.

Þau Sigrún og Moshe vinna að fleiri verkefnum sem tengja saman þessa tvo gerólíku menningarheima. Moshe segir að þegar þau hafi flutt til Íslands hafi fólk ráðlagt sér að lesa íslenskar barnabækur til að æfa sig í tungumálinu. Hann hreifst svo af lestri á bókinni Eplasneplar eftir Þóreyju Friðbjörnsdóttur að þau hafa nú þýtt bókina á hebresku og hún verður von bráðar gefin út af forlagi í Ísrael. Moshe segir allt eins geta farið svo að þau þýði einnig barnabækur úr hebresku á íslensku. Sjálfur minnist hann ótal heillandi frásagna úr eigin barnæsku sem gaman væri að deila með íslenskum börnum.

Morgunblaðið/Ásdís HÖFUNDAR sögunnar af Músa-mús. F.v. Moshe Okon, Sara Vilbergsdóttir og Sigrún Birna Birnisdóttir. Músa-mús