BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, hefur varað Kanadamenn við ólöglegum aðgerðum vegna laxveiði Bandaríkjamanna við vesturströndina og segist ekki munu láta þeim ósvarað verði þeim ekki hætt.
Laxastríðið við Kanada

Clinton hótar gagnaðgerðum

Toronto. Reuter.

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, hefur varað Kanadamenn við ólöglegum aðgerðum vegna laxveiði Bandaríkjamanna við vesturströndina og segist ekki munu láta þeim ósvarað verði þeim ekki hætt.

Kanadíska dagblaðið Toronto Globe and Mail skýrði frá þessu í gær en hótun Clintons kemur fram í bréfi, sem hann sendi öldungadeildarþingmönnum í Alaska. Kanadamenn hafa sakað Bandaríkjamenn um að stunda rányrkju á laxi við vesturströndina en engir kvótar hafa verið á laxinum þar í fjögur ár vegna deilu ríkjanna um nýjan samning.

Í bréfinu segir Clinton, að komi aftur til ólöglegra aðgerða eins og þegar sjómenn í Bresku Kólombíu stöðvuðu ferju frá Alaska í júlí sl., þá muni því verða svarað á viðeigandi hátt.

Bréfið skrifaði Clinton í síðustu viku en þá hafði Jean Chretien, forsætisráðherra Kanada, samband við Clinton og bað að leggjast á eitt með sér við að leysa deiluna.