FÆREYJAR og Bretland munu á næstu mánuðum gera lokatilraun til að semja um lögsögumörk á landgrunninu á milli Færeyja og Skotlands, á "hvíta svæðinu" svokallaða, þar sem talið er líklegt að olíu sé að finna. Samningafundur verður haldinn í London í næstu viku.
Bretar og Færeyingar reyna að semja um "hvíta svæðið"

Dráttur hefur áhrif á

viðræður um Hvalbak

FÆREYJAR og Bretland munu á næstu mánuðum gera lokatilraun til að semja um lögsögumörk á landgrunninu á milli Færeyja og Skotlands, á "hvíta svæðinu" svokallaða, þar sem talið er líklegt að olíu sé að finna. Samningafundur verður haldinn í London í næstu viku.

Árni Olafsson, formaður viðræðunefndar Færeyinga, segir í samtali við Morgunblaðið að náist ekki samkomulag á næstunni verði deilunni vísað til Alþjóðadómstólsins í Haag.

Óvíst er hvenær dómsniðurstaða liggur fyrir. Dráttur á niðurstöðu í málinu getur haft áhrif á samningaviðræður Íslands og Færeyja um mörk lögsögu landanna, sem fram hafa farið undanfarna mánuði.

Færeyingar óttast

óheppilegt fordæmi

Ástæðan er sú að sú deila snýst um stöðu klettaskersins Hvalbaks, en í deilu Færeyinga og Breta vilja brezk stjórnvöld miða miðlínu við óbyggðar eyjar og sker norður af Skotlandi. Færeyingar óttast að viðurkenni þeir áhrif Hvalbaks að hluta eða öllu leyti, gefi það óheppilegt fordæmi í deilunni við Breta, þar sem mun meiri hagsmunir eru í húfi vegna olíuleitar á "hvíta svæðinu."

Árni Olafsson segir að óbein tengsl séu á milli þessara tveggja deilumála og að æskilegast sé að ná niðurstöðu í deilunni við Breta áður en gengið verði frá samningi við Ísland um lögsögumörk.

Færeyskir togarar hafa nokkrum sinnum á undanförnum árum veitt á "gráa svæðinu", sem er á lögsögumörkum Íslands og Færeyja vegna deilunnar um Hvalbak. Landhelgisgæzlan hefur stuggað við skipunum en ekki fært þau til hafnar í samræmi við "heiðursmannasamkomulag" Íslands og Danmerkur frá 1988.



Getur seinkað/12