Hægri hönd Jiangs
Zemins hækkaður í
tign innan flokksins
Peking. Reuter.
FLOKKSÞINGI kínverska kommúnistaflokksins lýkur í dag. Á meðal þeirra mála sem afgreidd verða
áður en þinginu lýkur eru kosningar til mið- og framkvæmdastjórnar flokksins. Búist er við að Zeng Qinghong, einn helsti aðstoðarmaður Jiang Zemins, verði hækkaður í tign innan miðstjórnarinnar. Í framkvæmdastjórninni sitja sjö valdamestu menn fjölmennasta ríkis heims, en búist er við að nýr borgarstjóri Peking, Jia Qinglin, Zhang Wannian og Chi Hoatian hershöfðingi nái kjöri til setu í henni.
Þingið samþykkti frambjóðendalista til miðstjórnarinnar í gær, auk frambjóðendalista til nefndar um rannsóknir á agabrotum. Í miðstjórninni sitja 189 fulltrúar auk 130 varafulltrúa sem taka sæti þeirra í forföllum og eru frambjóðendur mun fleiri en sætin sem þeir berjast um. Ekki var gefið upp hvernig kosningarnar færu fram en á síðasta flokksþingi var um leynilegar kosningar að ræða.
Á meðal þeirra sem búist er við að verði að víkja úr framkvæmdastjórninni eru Liu Huaqing hershöfðingi og Qiao Shi forseti kínverska þingsins en báðir hafa þeir gagnrýnt Jiang Zemin, forseta og leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins. Getum hefur hins vegar verið að því leitt að Qiao Shi muni taka við forsætisráðherraembættinu af Li Peng á næsta ári, en Li Peng verður samkvæmt lögum að segja af sér eftir tvö fimm ára kjörtímabil.
Kenningar Dengs Xiaopings lögfestar
Á dagskrá lokafundarins í dag er einnig árétting ræðu sem Jiang Zemin hélt við opnun þingsins fyrir viku. Í ræðunni upphóf hann Deng Xiaoping, fyrrum leiðtoga Kína, og kenningar hans sem m.a. miðuðu að því að draga úr miðstýringu og koma á efnahagslegum endurbótum.
Að loknum umræðum um ræðu Jiangs Zemins verður gengið til kosninga um stjórnlagabreytingu sem miðar að því að gera kenningar Deng Xiaopings að kennisetningum flokksins og þar með jafngildar kenningum Mao Zedong. Þessi breyting mun síðan auðvelda Jiang Zemin að réttlæta eigin efnahagsumbætur.
Á þinginu vakti athygli í gær, að Raidi, forseti Tíbetþings, sem er hollt stjórnvöldum í Peking, hældi þeim árangri sem náðst hefði í baráttunni gegn aðskilnaðarsinnum í Tíbet, og sagði kínversk stjórnvöld tilbúin til viðræðna við hinn útlæga trúarleiðtoga Tíbetmanna, Dalai Lama, með því skilyrði að hann afsalaði sér fyrst öllu tilkalli til veraldlegra valda.