EVRÓPSKIR tónlistarmenn vottuðu sópransöngkonunni Maríu Callas virðingu sína í Aþenu á þriðjudagskvöld á tónleikum, sem haldnir voru til að minnast þess að 20 ár eru liðin frá andláti hennar. Callas lést af hjartaáfalli í íbúð sinni í París 16. september árið 1977.

Í minningu

Maríu Callas

Aþenu. Reuter.

EVRÓPSKIR tónlistarmenn vottuðu sópransöngkonunni Maríu Callas virðingu sína í Aþenu á þriðjudagskvöld á tónleikum, sem haldnir voru til að minnast þess að 20 ár eru liðin frá andláti hennar. Callas lést af hjartaáfalli í íbúð sinni í París 16. september árið 1977.

Tónleikarnir voru haldnir í útileikhúsi við rætur Akrópólishæðar í Aþenu og mátti meðal annars heyra þar tóna úr "Requiem" eftir Verdi í flutningi tónlistarmanna úr fílharmóníuhljómsveitum ásamt 100 manna kór Fílharmóníu Transylvaníu frá Rúmeníu.

Margir af vinum Callas og starfsfélögum voru á tónleikunum og kváðust fagna því að minningu hennar væri haldið á lofti. "Ég er ekki hryggur," sagði Nicola Rescigno, sem stjórnaði Callas í mörgum óperum. "María skildi eftir slíka arfleifð að hún lifir áfram í sjónvarpsupptökum, á hljómplötum og í sínum glæstu verkum."

Gríska sópransöngkonan Irene Tsirakidou og messósópraninn Elen Matos sungu á tónleikunum ásamt breska tenórnum James Oxley og rússneska tenórnum Óskari Abdrazakoff.

Grikkir minnast Callas sérstaklega í þessari viku með tónleikum og minningarathöfnum. Hún var einn ástsælasti listamaður Grikkja. Foreldrar hennar voru grískir og hún hóf ferilinn í Grikklandi þótt hún öðlaðist frægð á Ítalíu þegar hún kom fram í "La Gioconda" eftir Ponichelli árið 1947. Callas kom síðast fram á sviði 1964 og 1965 í "Toscu" eftir Puccini og "Normu" eftir Bellini. Þegar ferli hennar lauk kenndi hún við Juilliard-tónlistarskólann í New York veturinn 1971­72.

Callas var einnig í fréttum vegna ástarsambands síns við gríska skipakónginn Aristoteles Onassis og var eyðilögð þegar hann kvæntist Jacqueline Kennedy.