TorgiðGamlir bankar í nýjum búningi »STJÓRNVÖLD hafa tekið þann kost að gera einungis lágmarksbreytingar á skipulagi í æðstu stjórn ríkisviðskiptabankanna um næstu áramót þegar bönkunum verður breytt í hlutafélög.
Torgið

Gamlir bankar í

nýjum búningi

»STJÓRNVÖLD hafa tekið þann kost að gera einungis lágmarksbreytingar á skipulagi í æðstu stjórn ríkisviðskiptabankanna um næstu áramót þegar bönkunum verður breytt í hlutafélög. Hefur viðskiptaráðherra fært þau rök fyrir þessari niðurstöðu að nauðsynlegt sé við stofnun hinna nýju hlutafélagsbanka að gæta þess að starfsemi þeirra verði í rökréttu framhaldi af starfsemi ríkisviðskiptabankanna. Með því verði viðhaldið því trausti og trúnaði gagnvart viðskiptavinum, starfsfólk og lánardrottnum sem þeir hafa aflað sér.

Þegar upp er staðið má segja að helsta breytingin í æðstu stjórn nýju hlutafélagsbankanna sé sú að endurráða einn af núverandi bankastjórum ríkisbankanna í stöðu aðalbankastjóra og hina í sínar fyrri stöður. Saman verði þessir þrír ábyrgir fyrir rekstrinum eins og verið hefur. Reyndar hefur verið lagt bann við að nota starfsheitin framkvæmdastjóri og aðstoðarbankastjóri, en vandséð er að það hafi raunhæfa þýðingu. Í bankaráðin hafa stjórnmálaflokkarnir valið sína trúnaðarmenn líkt og verið hefur.

Í öðru orðinu hafa stjórnvöld hins vegar gefið til kynna að skráning bankanna á Verðbréfaþingi og sala á nýju hlutafé muni tryggja aðhald og aga í rekstri bankanna. Þetta muni nást fram með auknu aðhald hluthafa, virkum samanburði við önnur fyrirtæki og reglum Verðbréfaþingsins. Það sjónarmið virðist þannig hafa orðið ofan á að skynsamlegast hafi verið að hafa lítt breytta skipan mála í bönkunum en láta fjárfestum eftir að þrýsta á um umbætur í rekstri og uppstokkun í skipulagi bankanna.

Sala á 5-10% hlut skapar lítið aðhald

Sú niðurstaða sem nú er orðin hefur hlotið nokkra gagnrýni og bent er á að stjórnvöld hefðu átt að grípa þetta tækifæri um áramótin til að gera meiri breytingar á skipan mála í æðstu stjórn bankanna. Sérstaklega virðist skipan bankaráðanna hafa valdið vonbrigðum.

Í þessu sambandi má benda á að þótt 5-10% hlutafjár verði seld á almennum markaði skapar það heldur lítið aðhald að rekstri ríkisbankanna. Væntanlega munu þessi bréf dreifast á mjög margar hendur þannig að enginn einn fjárfestir verði leiðandi í hópnum. Ríkið hlýtur áfram að hafa tögl og haldir í þessum stofnunum þar til það verður komið í minnihluta. Því er mikilvægt að einkavæðing þessara stofnana gangi hratt fyrir sig og ekki má láta staðar numið við sölu á 35% hlut.

Sala hlutafjárins ætti að geta gengið greiðlega fyrir sig á hinum óseðjandi hlutabréfamarkaði. Einkum á þetta þó við um Búnaðarbankann þar sem stjórnendur geta státað af þokkalegum rekstri á undanförnum árum. Batamerki hafa komið fram í rekstri Landsbankans á þessu ári eftir hörmulega útkomu undanfarin ár, en margt bendir til að þar sé mikið verk óunnið í hagræðingu.

KB