Valsmenn eru bikarmeistarar í 2. flokki karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Víkingum á Valbjarnarvelli á þriðjudagskvöldið. Valur hafði mikla yfirburði í leiknum og urðu lokatölur 7:1. Hlíðarendaliðið hefur haft mikla yfirburði í 2. flokki í sumar og eru þrefaldir meistarar; Reykjavíkur-, bikar- og Íslandsmeistarar.
Valsmenn þre- faldir meistarar Valsmenn eru bikarmeistarar í 2. flokki karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Víkingum á Valbjarnarvelli á þriðjudagskvöldið. Valur hafði mikla yfirburði í leiknum og urðu lokatölur 7:1. Hlíðarendaliðið hefur haft mikla yfirburði í 2. flokki í sumar og eru þrefaldir meistarar; Reykjavíkur-, bikar- og Íslandsmeistarar.

Eins og tölurnar gefa til kynna var sigur Valsmanna aldrei í hættu. Eftir níutíu sekúndna leik kom Arnar Hrafn Jóhannsson Valsmönnum yfir með góðu skoti úr vítateignum eftir sendingu frá vinstri en Valsmenn hófu leikinn með stórsókn. Á 21. mínútu má segja að úrslit leiksins hafi ráðist þegar leikmanni Víkings var vikið af leikvelli fyrir að brjóta á Matthíasi Guðmundssyni, sem sloppinn var einn inn fyrir. Úr aukaspyrnu skoraði Ólafur Júlíusson en boltinn breytti um stefnu af varnarmanni Víkings og hafnaði óverjandi í markhorninu. Arnar Hrafn skoraði öðru sinni á 40. mínútu þegar gott skot hans úr aukaspyrnu af 30 metra færi hafnaði efst í markhorninu, óverjandi fyrir markvörð Víkings.

Yfirburðir Valsmanna voru álíka miklir í seinni hálfleik. Á 52. mínútu færði Sigurður Sæberg Þorsteinsson Valsmönnum fjögurra marka forystu og nokkrum mínútum síðar var staðan orðin 5:0 eftir að Brynjar Sverrisson skoraði með góðu skoti úr aukaspyrnu. Matthías Guðmundsson skoraði sjötta markið eftir skyndisókn Valsmanna en rétt áður höfðu Víkingar fengið upplagt færi til að skora en markvörður Vals, Tómas Ingason, bjargaði frábærlega. Ólafur Júlíusson skoraði sitt annað mark rétt fyrir leikslok, 7:0, en skömmu síðar náði Hallur Dan að minnka muninn með góðu skoti úr vítateig Valsmanna eftir að Sváfnir Gíslason hafði skallað.

Víkingar sáu aldrei til sólar í þessum leik. Liðinu var enda vorkunn, því það spilar í B-riðli og er í sannleika sagt mun lakara en Valsliðið. Hins vegar ber að virða það við Víkinga, að þeir gáfust aldrei upp og börðust til síðustu mínútu þrátt fyrir vonlitla eða vonlausa stöðu.

Valsmenn eru vel að þessum sigri komnir. Liðið er geysilega sterkt og liggur styrkur þess helst í tæknilegri getu leikmanna. Einfaldir hlutir, eins og sendingar milli leikmanna, ganga snurðulaust og mættu mörg lið taka sér það til fyrirmyndar. Það er ljóst, að grunnþjálfun þessara drengja hefur tekist vel og hér er kominn sá efniviður sem stórveldið forna að Hlíðarenda mun byggja á í framtíðinni.

Morgunblaðið/Borgar Þór Einarsson Þrefaldir meistarar! VALSMENN hafa náð glæsilegum árangri í sumar. Liðið skipa eftirtaldir leikmenn: Arnar Hrafn Jóhannsson, Arnór Gunnarsson, Ágúst Guðmundsson, Brynjar Sverrisson, Gísli Þór Guðmundsson, Grímur Alfreð Garðarsson, Guðmar Gíslason, Guðmundur Kristjánsson, Helgi Már Jónsson, Henry Þór Reynisson, Jóhann Hilmar Hreiðarsson, Kristinn Geir Guðmundsson, Kristinn Svanur Jónsson, Matthías Guðmundsson, Ólafur Valdimar Júlíusson, Páll Sigurgeir Jónsson, Sigurður Garðar Flosason, Sigurður Sæberg Þorsteinsson, Stefán Helgi Jónsson, Tómas Ingason, sem jafnframt er fyrirliði, og Villy Þór Ólafsson. Þjálfari liðsins er Þorlákur Árnason og liðstjóri Þórarinn Gunnarsson.

FYRIRLIÐI Vals, Tómas Ingason, hampar hér sigurlaununum í bikarkeppni 2. flokks. Þegar Tómas fékk s.k. "heiðursskiptingu" á 80. mínútu var ljóst að bikarinn var í höfn. Hafði Tómas þá á orði, að hann þyrfti ekkert að æfa hægri höndina á veturna ef þessi sigurganga héldi áfram ­ hann fengi nóga æfingu með því að hefja bikara á loft.

Borgar Þór

Einarsson

skrifar