Ætlaði
að sigra
heiminn
PÁLL Pálsson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í bílkrossi
á sunnudaginn var. Hann keppti í flokki krónubíla og hefur ekið af kappi í fimm ár og er á sínum þriðja keppnisbíl. "Kláraði" tvo bíla á fáum árum, á meðan hann steig sín fyrstu feilspor í aksturskeppni.
Ég ætlaði að vinna allt og alla strax í byrjun. Sigra heiminn í fyrstu keppni, en það tók mig fimm ár að komast á toppinn," sagði Páll í samtali við Morgunblaðið. Hann vann sinn fjórða sigur í röð í síðustu keppni og innsiglaði þannig Íslandsmeistaratitilinn. "Ég keyrði á steinvegg í fyrstu keppni og varð að hætta, en síðan hefur allt gengið upp. Ég hef keppt um titilinn í þrjú ár, en tvö fyrstu árin voru á rólegri nótunum og ég eyðilagði tvo bíla, ek þeim þriðja núna.
Það er mikil vinna að keppa í bílkrossi, þó sumir bílanna líti illa út. Ég vinn mikið fyrirbyggjandi viðhald. Tók vélina þrisvar upp í sumar, en hún er um 200 hestöfl með sérstökum nítróbúnaði og þarfnast því viðhalds. Þá fylgdist ég vel með öxlum og drifi, sem ekki eru hannaðir fyrir svona mikið afl. Gírkassinn hangir sumarið. Fyrir tvö síðustu mótin yfirfór ég allt í bílnum, sem skilaði mér bilanalaust í gegn. Þá hjálpaði mér að ég keppti á sérstökum keppnisdekkjum, sem gáfu betra grip."
Páll sagði að nú, þegar hann væri búinn að vinna titilinn, myndi hann velta framhaldinu fyrir sér. "Mig langar að færa mig upp um flokk og hef leitað að hentugum sportbíl á tjónamiðstöðvum, sem mætti smíða keppnisbíl úr. Ég hef líka áhuga á rallinu, en það kostar meiri vinnu og peninga. Bílkrossið er á uppleið og margir sprækir strákar að keppa. Ég nota veturinn til að skoða hvað er í boði," sagði Páll.
Páll hlaut 80 stig í flokki krónubíla, Ólafur Ingi Ólafsson 65, Sigurður Óli Gunnarsson 54, Halldór Björnsson 47 og Marían Sigurðsson 45. Í flokki rallykross bíla varð Ásgeir Örn Rúnarsson meistari á 72 stigum, Ellert Kr. Alexandersson fékk 66, Sverrir M. Ingjaldson 64, Högni Gunnarsson 54 og Sæmundur Sæmundsson 47.
Morgunblaðið/Gunnlaugur Rögnvaldsson PÁLL Pálsson hefur ekið Lancer listavel og leiðir hér Ólaf Inga Ólafsson eftir krossbrautinni. Ólafur kom honum næstur að stigum til Íslandsmeistara.
PÁLL Pálsson Gunnlaugur
Rögnvaldsson
skrifar