BYKO hóf starfsemi í Lettlandi árið 1993 en þá opnaði fyrirtækið skrifstofu í höfuðborginni, Riga, sem annaðist kaup á timbri og sá um flutning þess til Íslands. Brátt kom í ljós að möguleikar á frekari starfsemi voru miklir þar
ÐBYKO hefur byggt upp myndarlega starfsemi við Eystrasalt

Helmingur framleiðslunnar á Evrópumarkað

Á undanförnum árum hefur BYKO stundað timburviðskipti og úrvinnslu timburs í Lettlandi og hafa umsvifin aukist ár frá ári. Heildarumsvif verksmiðjunnar nema á þriðja hundrað milljóna króna og fer helmingur framleiðslunnar til Íslands en hinn helmingurinn á Evrópumarkað. Kjartan Magnússon heimsótti verksmiðjuna og ræddi við Jón Helga Guðmundsson, framkvæmdastjóra BYKO.

BYKO hóf starfsemi í Lett landi árið 1993 en þá opnaði fyrirtækið skrifstofu í höfuðborginni, Riga, sem annaðist kaup á timbri og sá um flutning þess til Íslands. Brátt kom í ljós að möguleikar á frekari starfsemi voru miklir þar eystra og kviknaði sú hugmynd að fyrirtækið hæfi einnig vinnslu á timbri í landinu. Þessi hugmynd varð að veruleika fyrir tveimur árum en þá keypti BYKO gamalt samyrkjubú í Jumaras, skammt frá bænum Valmiera, og kom þar á fót timburvinnslu. Þar vinna nú 22 Lettar en enginn Íslendingur að staðaldri en grannt er fylgst með rekstrinum úr höfuðstöðvum BYKO í Kópavogi að sögn Jóns Helga Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Hæg en örugg uppbygging

Húseignir samyrkjubúsins eru samtals um átta þúsund fermetrar að stærð og segir Jón Helgi að flestar þeirra hafi verið í mikilli niðurníðslu er BYKO tók við þeim. "Húsnæðið var í ólýsanlegu ástandi og þótt ekki væri um hreinlegri starfsemi en timburvinnslu að ræða þurfti heldur betur að taka til hendinni og leggja mikla vinnu í endurbyggingu áður en hægt var að hefja starfsemi fyrir alvöru. Á þessum árum höfum við bætt húsnæðið og byggt starfsemina upp hægt en örugglega. Sögunarmyllu var komið fyrir í einu fjósinu en annað húsnæði er nýtt undir flokkun og vinnslu timburs. Nýlega var síðan sett upp brennslustöð, sem brennir afgöngum úr sögunarmyllunni, en hitinn frá henni nýtist okkur síðan við þurrkun viðarins."

Í stórum dráttum fer starfsemin þannig fram að fyrirtækið kaupir timbur af smáum framleiðendum og skógarhöggsmönnum í nágrenninu og flytur það í timburvinnsluna þar sem það er flokkað, þurrkað og sagað niður. Mestallt timbrið kemur úr lettneskum skógum en miklir skógar eru í nágrenni Jumaras. Að undanförnu hefur BYKO einnig tekið timbur frá Rússlandi til vinnslu.

Tilbreyting að selja útlendingum timbur

Timburvinnslunni í Jumaras var upphaflega fyrst og fremst ætlað að vinna timbur fyrir BYKO á Íslandi en að undanförnu hefur fyrirtækið þreifað fyrir sér með timbursölu beint til annarra landa með góðum árangri. Segja má að þessi sala sé undantekning á þeirri reglu að millilandaviðskipti íslenskra iðnfyrirtækja snúist aðallega um að kaupa hráefni til landsins. "BYKO hefur svo að segja frá stofnun keypt timbur beint frá framleiðendum og þannig höfum við stofnað til margvíslegra sambanda í slíkum viðskiptum víða um heim. Þegar timburvinnslan í Jumaras var komin á rekspöl datt mér í hug hvort ekki mætti nýta þessi tengsl til þess að selja útlendingum timbur. Mér fannst að minnsta kosti þess virði að reyna enda mikil tilbreyting að selja útlendingum eitthvað í stað þess að vera að kaupa af þeim. Þetta hefur gengið framar vonum og nú seljum við töluvert af timbri beint frá Lettlandi til Hollands og Danmerkur. Þessi þáttur er ört vaxandi í starfseminni og ég vænti þess að hann eigi eftir að aukast enn frekar. Árleg velta lettnesku starfseminnar er á þriðja hundrað milljóna króna og í ár stefnir í að helmingur framleiðslunnar fari til Íslands en hinn helmingurinn til Hollands og Danmerkur."

Allir stjórnendur undir þrítugu

Jón Helgi ber Lettum vel söguna og segir samstarfið við þá ganga vel. "Í byrjun fannst okkur hlutirnir ganga hægt enda var vinnuandinn í gamla sovétstílnum og þar af leiðandi hægur. Smám saman hefur okkur tekist að þróa vinnubrögðin í rétta átt og það skilar sér æ betur í auknum afköstum og vandaðri vinnubrögðum. Unga kynslóðin er mjög viljug að læra nýjar aðferðir og fyrri til að tileinka sér breytt viðhorf en hinir eldri. Talandi dæmi um það er að allir stjórnendur hjá okkur eru undir þrítugu.

Stjórnvöld eru jákvæð í okkar garð og samskipti við þau góð enda þarf þjóðin á erlendum fjárfestingum að halda. Launin eru lág miðað við það sem tíðkast á Vesturlöndum og það, ásamt hráefnisverðinu, gerir reksturinn hagkvæman."

Sjálfbærir skógar

Lettland er afar skógríkt land en um 60% þess eru skógi vaxin. Jón Helgi segir að timburiðnaður landsins sé í miklum vexti og á síðasta ári hafi alls verið teknar fjórar milljónir rúmmetra af timbri úr lettneskum skógum. Lítil hætta sé þó á stórfelldri eyðingu skóganna í bráð enda séu þeir sjálfbærir og taka megi allt að sex milljónum rúmmetra árlega án þess að ganga á höfuðstólinn. "Lettar leggja mikla áherslu á ábyrga skógarnýtingu og hafa lettnesk stjórnvöld smíðað reglur í því skyni í samstarfi við Svía. Vinnsla timbursins í Lettlandi hefur verið takmörkuð til þessa en við vinnum markvisst að því að auka fullvinnsluna þar. Á næstu árum mun BYKO því bæta vélakostinn í Jumaras og þróa starfsemina þar með það fyrir augum að framleiða gæðatimbur."

Frekari áhersla á gæði og fullvinnslu timburs

Jón Helgi segir að vissulega hafi ýmsir erfiðleikar fylgt því fyrir starfsmenn BYKO að hefja slíkan rekstur í eins ólíku landi og Lettland er íslandi en þegar á heildina sé litið hafi verkefnið verið afar lærdómsríkt og skemmtilegt. "Starfsemin er nú gróin í héraðinu og BYKO orðið þekkt nafn í timburiðnaðinum í Lettlandi. Enn frekari vaxtarmöguleikar eru fyrir hendi þar eystra og við höfum fullan hug á að nýta þá en verðum um leið að gæta þess að fara ekki of geyst. Hingað til hefur starfsemin eystra styrkt stöðu BYKO og komið viðskiptavinum þess til góða og ég á von á því að hún geri það áfram."

Morgunblaðið/Golli JÓN Helgi Guðmundsson, framkvæmdastjóri BYKO.



Morgunblaðið/Kjartan Magnússon BYKO hefur komið á fót timburvinnslu á gömlu samyrkjubúi í Jumaras í Lettlandi

Miklir möguleikar í timburiðnaði í Lettlandi

Lettar leggja áherslu á ábyrga skógarnýtingu