HINN 29. júlí sl. var þess minnst í frétt í Morgunblaðinu, að á þessu ári er ein öld frá fæðingu Einars Sigurðssonar, skipasmíðameistara á Fáskrúðsfirði. Ég sem þetta rita átti því láni að fagna að kynnast Einari. Ég man vel ýmsar heimsóknir hans suður að Löndum í Stöðvarfirði, en þaðan var Þórhildur kona hans. Mér fannst alltaf hátíð þegar hann kom.
Þankabrotí tilefni aldarafmælis Einars Sigurðssonar, Fáskrúðsfirði
Einari Þór Þorsteinssyni:
HINN 29. júlí sl. var þess minnst í frétt í Morgunblaðinu, að á þessu ári er ein öld frá fæðingu Einars Sigurðssonar, skipasmíðameistara á Fáskrúðsfirði.
Ég sem þetta rita átti því láni að fagna að kynnast Einari. Ég man vel ýmsar heimsóknir hans suður að Löndum í Stöðvarfirði, en þaðan var Þórhildur kona hans. Mér fannst alltaf hátíð þegar hann kom. Eitt sinn um haust kom hann til þess að leiða rafmagn í bæinn frá vindrafstöð. Það var reyndar ekki hans sérfag, að fást við rafmagn, en allt lék í höndum hans sem hann vann að. Ég man að ég beið í ofvæni eftir að ljós kæmi á fyrstu peruna. Ég starði á peruna og allt í einu kviknaði ljós á henni. Það lýsti um herbergið og út í kvöldmyrkrið. En eins og Einar lagði strengi að svona ljósi kveiki hann mörg ljósin í samfélagi sínu, ekki aðeins með verkum sínum, heldur einnig með framkomu sinni við aðra, sem heiðursmaður.
Eins og áðurnefnd frétt í Morgunblaðinu ber með sér, var hinn 26. júlí sl. afhjúpaður minnisvarði um Einar í skrúðgarði kaupstaðarins á Fáskrúðsfirði. Dóttir hans, Guðrún, húsfreyja á Fáskrúðsfirði, bauð mér að flytja þar ávarp, sem ég og gerði á ákveðnum stað í dagskránni. Þar á eftir afhjúpaði svo alnafni Einars minnisvarðann, sonarsonur hans, Einar Sigurðsson, sem er ungur námsmaður í Reykjavík. Áðurnefnd frétt í Morgunblaðinu, þetta varðandi, er því ekki rétt.
Kona Einars, Þórhildur, lést árið 1940. Til minningar um hana afhenti Einar formanni bindindis- og skógræktarfélagsins Nýgræðings á Stöðvarfirði, Arnleifi V. Þórðarsyni, 2.000 krónur. Það átti sér stað á gamlársdag 1943. Minningargjöfinni skyldi varið til skógræktar á Stöðvarfirði. Fyrir þessa gjöf Einars var meðal annars keypt land fyrir utan kauptúnið á Stöðvarfirði, einnig girðingarefni umhverfis landið og dálítið af trjáplöntum, sem voru gróðursettar í skógarreitinn. Þetta var gert á árunum 1944-1945.
Má því segja, að upphaf skógarreitsins utan við kauptúnið á Stöðvarfirði, með þeim skógi sem þar er í dag, sé að þakka fyrrnefndri minningargjöf Einars Sigurðssonar.
Það er vissulega þakkarefni að hafa kynnst manni eins og Einari, sem smíðaði báta og hús og lagði ljós í hús og var þar að auki sannur mannræktarmaður í sínu lífi.
Mættum við Íslendingar ávallt eiga sem flesta slíka menn.
EINAR ÞÓR ÞORSTEINSSON,
Eiðum, 701 Egilsstöðum.