Kennaraverkföll valda upplausn
MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun stjórnar Barnaheilla um yfirstandandi kjaradeilu launanefndar sveitarfélaganna við grunnskólakennara:
"Af fréttum má heyra að enn og aftur stefni í harða kjaradeilu grunnskólakennara við viðsemjendur sína. Mikið virðist bera í milli verði ekki hugarfarsbreyting hjá deiluaðilum mun starf í grunnskólum í landinu í vetur vegna verkfalls.
Stjórn Barnaheilla bendir á að sú óvissa sem nú ríkir er með öllu óþolandi fyrir barnafjölskyldur í landinu.
Komi til verkfalla mun það hafa slæm áhrif á framvindu náms hjá þorra nemenda, einkum þeim sem standa höllum fæti fyrir.
Sú endurtekna truflun sem orðið hefur á skólastarfi vegna kjaradeilna kennara hefur óhjákvæmilega orðið til þess að skólakerfið setur ofan í augum nemenda.
Við höfum nýleg dæmi um hvernig kennaraverkföll valda upplausn í lífi nemenda. Skólinn er mikilvæg kjölfesta í daglegu lífi þeirra. Þegar þeir missa þessa kjölfestu um tíma hlýtur það að hafa neikvæð áhrif. Í því sambandi skal bent á að sterkar vísbendingar eru um að verkfallið 1995 hafi leitt til aukningar vímuefnaneyslu meðal grunn- og framhaldsskólanema.
Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um forvarnir og ekki síst mikilvægi skólakerfisins í vímuvörnum. Slík umræða er orðin tóm við þær aðstæður sem nú ríkja.
Mikil ábyrgð hvílir því á herðum þeirra aðila sem sitja við samningaborð í þessari deilu. Langvinn óánægja kennara með kaup og kjör hefur með beinum og óbeinum hætti haft heftandi áhrif á framþróun skólastarfs. Takist ekki að bæta laun þeirra í þessari lotu mun það ástand ekki breytast."