HILMAR Össurarson, bóndi í Kollsvík, segir að fé sem ekki heimtist hafi safnast fyrir í fjallinu Tálkna á síðustu 15-20 árum. Hilmar fór með þyrlu til að kanna sauðféð í fjallinu fyrir einu og hálfu ári. Þá voru taldar 13 kindur í fjallinu en Hilmar telur að þær geti verið orðnar nærri 30 núna.
Líklega smalað úr fjallinu Tálkna á næstu dögum

Féð er styggt og

rennur á menn

HILMAR Össurarson, bóndi í Kollsvík, segir að fé sem ekki heimtist hafi safnast fyrir í fjallinu Tálkna á síðustu 15-20 árum. Hilmar fór með þyrlu til að kanna sauðféð í fjallinu fyrir einu og hálfu ári. Þá voru taldar 13 kindur í fjallinu en Hilmar telur að þær geti verið orðnar nærri 30 núna. Hann segir að enginn hafi sérstakan áhuga á þessu fé nema þeir sem vilji vernda það og sjái það í dýrðarljóma villifjár. Gísli Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, kveðst hins vegar alveg viss um að sauðféð hafi verið í Tálkna síðustu 30 ár. Hann segir féð afar styggt og renni á menn lendi það í þröng.

Hilmar telur að kindurnar séu frá fleiri en einum aðila. "Fyrst og fremst upphófst þetta vegna þess að eftirliti sveitarstjórna varðandi fjallskil var ekki sinnt. Þetta hefur liðist og kindunum fjölgað stig af stigi," segir Hilmar.

"Það hafa fallið úr mörg haust þar sem því hefur ekki verið sinnt nánar nærri vel að smala úr fjallinu. Lokaábyrgðin er hjá sveitarfélögunum. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur eru landeigendur því sauðféð gengur beggja vegna sveitarfélagamarka," sagði Hilmar.

Hann sagði að eini aminn væri að vita af fénu þarna ef það gerði fellivetur. Undanfarnir vetur hafi verið heldur snjólitlir og féð varla liðið fyrir það. Það safni hins vegar á sig mörgum reyfum því ekki sé hirt um að rýja. Hilmar sagði að menn bæru kvíðboga fyrir því ef rétt reyndist að féð væri smitað riðu. Lítið væri vitað um smitleiðir.

"Að vísu er lítill samgangur af þessu fé við annað fé núorðið. En lítið er vitað um smitleiðirnar og óþarfi er að taka áhættu ef hún er fyrir hendi með riðusmit," sagði Hilmar.

Syntu á haf út

Gísli Ólafsson segir að til hafi staðið að smala af fjallinu í fyrra en Tálknfirðingar hafi ýtt því frá sér. Síðast var smalað í hitteðfyrra en féð náðist ekki allt af fjalli.

"Við reyndum að ná því sem mögulegt var. Féð er kolvitlaus því það hefur ekki komist í hús eða nálægð við menn áratugum saman. Kindurnar syntu frekar á haf út í hitteðfyrra þegar reynt var að smala þeim heldur en að láta króa sig af. Þær eru svo villtar að þær renna beint á menn ef þær komast í þröng. Kindur hafa verið í fjallinu í a.m.k. þrjátíu ár en ég er ekki trúaður á það að riðuveiki sé í fénu, það væri þá löngu dautt," sagði Gísli.

Eina leiðin að skjóta féð

Hann kvaðst gera ráð fyrir því að smalað yrði úr fjallinu á næstu dögum. "Þegar reynt var að slátra fénu 1985 var það gert úr þyrlu og með aðstoð víkingasveitar lögreglunnar. Þá var allt hálfvitlaust í þjóðfélaginu yfir aðförunum. Það er því ekki gott að eiga við þetta þegar ekki má snerta á þessu með þeim hætti að það sé framkvæmt án þess að mönnum stafi hætta af. Það dettur engum heilvita manni í hug að láta menn eltast við féð við þær aðstæður sem þarna eru. Fjallið er mjög skorið og féð hleypur í syllur. Þaðan er ekki hægt að ná því öðruvísi en að skjóta það niður. En það hefur ekki verið sátt um það frekar en annað sem þessu viðkemur. Ég held þó að eina leiðin sé að skjóta féð sem ekki næst með öðrum hætti," sagði Gísli.

Gísli segir að komið hafi til tals meðal sumra að vernda bæri féð á fjallinu, en stofninn virðist hafa lifað þokkalegu lífi þarna allan þennan tíma. "Ég sé engan eðlismun á því hvort þessi fénaður lifir þarna eða hreindýr uppi á fjöllum. Auk þess er fé hér um alla útkjálka á Vestfjörðum sem ekki næst inn á hús. Ég held að sumir ættu að einhenda sér í það að ná sínu eigin fé á hús áður en þeir fara að hafa áhyggjur af öðrum," sagði Gísli.