JAN P. Syse, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, lést í gær 66 ára að aldri. Var banamein hans heilablóðfall. Syse var leiðtogi Hægriflokksins á árunum 1988 til 1991, iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Kåre Willochs 1983-'85 og forsætisráðherra í eitt ár, 1989-'90.
Jan P. Syse látinn Hófsamur mælskumaður

Ósló. Morgunblaðið.

JAN P. Syse, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, lést í gær 66 ára að aldri. Var banamein hans heilablóðfall. Syse var leiðtogi Hægriflokksins á árunum 1988 til 1991, iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Kåre Willochs 1983-'85 og forsætisráðherra í eitt ár, 1989-'90.

Syse varð forsætisráðherra í þriggja flokka stjórn Hægriflokksins, Kristilega þjóðarflokksins og Miðflokksins eftir kosningarnar 1989 en þeir höfðu aðeins 62 þingmenn saman og urðu því að reiða sig á stuðning Framfaraflokksins. Það voru hins vegar Evrópumálin, sem urðu stjórninni að falli, því að Miðflokkurinn gat ekki sætt sig við þau drög, sem þá voru til umræðu vegna væntanlegs samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Þetta eina ár Syses sem forsætisráðherra var honum að mörgu leyti mótdrægt og hann naut ekki mikilla vinsælda meðal landa sinna eftir að hann mátti viðurkenna að hafa ekki farið að lögum við rekstur fyrirtækis síns.

Jan Peder Syse fæddist í Nøtterøy skammt frá Ósló 35. nóvember 1930. Var hann fyrst kjörinn á stórþingið 1973 og sat þar síðan óslitið fram að kosningunum sl. mánudag. Syse var mælskur vel og slyngur í kappræðu, hafði góða kímnigáfu og hið mesta ljúfmenni. Sagði hann einu sinni um sjálfan sig, að hann væri allt að því "einstrengingslega hófsamur".