Birting meðaltala ýtir við
fólki og er af hinu góða
ÞEGAR meðaleinkunnir grunnskóla
landsins úr samræmdum prófum 10. bekkjar frá síðastliðnu vori eru bornar saman er einkum tvennt sem vekur sérstaka athygli: að af öllu landinu er meðaleinkunnin lægst á Suðurnesjum og að þeir skólar sem allra lægstu meðaleinkunn höfðu í fyrra hafa bætt sig verulega.
Á Suðurnesjum var meðaleinkunnin lægst í Gerðaskóla í Garði, 3,09. Einar Arason skólastjóri segir það hafa verið vitað fyrirfram, þar sem ljóst sé að árgangar geti verið afar mismunandi og að viðkomandi árgangur hafi ekki verið sterkur.
Sterk tengsl við atvinnulífið
Hann segir skólamenn á Suðurnesjum mikið hafa rætt slæma útkomu svæðisins sín á milli. "Við viljum ekki meina að unglingarnir hér séu vitlausari en annars staðar eða kennararnir verri, en við höfum velt upp þeirri spurningu hvort hin sterku tengsl við atvinnulífið sem hér eru hafi eitthvað að segja. Þetta birtist bæði í viðhorfi til menntunar og í því að krakkarnir vinna mikið með skólanum. Þegar loðnan kemur er t.d. stundum illa kennsluhæft."
Spurður um aðgerðir segir Einar enn ekki hafa verið ákveðið að taka afgerandi skref en auðvitað sé verið að skoða hvað sé til ráða. "Eflaust á þetta eftir að brýna kennara í kennslu," segir hann.
Guðbrandur Stígur Ágústsson, skólastjóri Patreksskóla, þar sem meðaleinkunnin hækkaði úr 3,19 í fyrra í 4,71 nú, er ánægður með niðurstöðuna og segir ljóst að það átak sem ráðist var í í kjölfar slæmrar útkomu í fyrra sé að bera árangur. Hann bendir á að nú sé meðaleinkunn Patreksskóla orðin hæst á Vestfjörðum en hún var næstlægst í fyrra. "Við erum ákveðin í að reyna að gera enn betur næst. Það að birta þessi meðaltöl ýtir heilmikið við fólki og er af hinu góða," segir hann.
Foreldrar betur meðvitaðir en áður
Skarphéðinn Jónsson, skólastjóri Grunnskólans á Hólmavík, tekur í sama streng og segir umræðuna í fjölmiðlum eftir birtingu einkunnanna í fyrra hafa orðið til þess að foreldrar væru orðnir betur meðvitaðir en áður og gerðu meiri kröfur til skólans.
Meðaleinkunnin á Hólmavík hækkaði í 4,0 nú en var 2,73 á síðasta ári. Aðspurður um hverju hann þakkaði þennan bætta árangur nefnir hann tvennt. Vinnuaðstaða starfsfólks hafi verið bætt verulega og keyptur hafi verið tölvubúnaður fyrir nemendur. Hann tekur þó einnig fram að í fámennum skólum geti meðaltal oft gefið villandi mynd, þó að það gefi kannski vísbendingu.
Fyrir dyrum stendur að gera úttekt á skólastarfinu á Hólmavík, og fá til þess aðstoð frá Kennaraháskólanum. Þegar er fenginn styrkur úr þróunarsjóði grunnskóla og gerir Skarphéðinn ráð fyrir að hafist verði handa fljótlega.