STJARNAN sigraði Fjölni 4:2 í framlengdum úrslitaleik í 3. flokki kvenna í ellefu manna liðum en leikurinn fór fram á Valbjarnarvelli á dögunum. Fyrirfram var búist við spennandi leik þar sem liðin stóðu uppi jöfn eftir innbyrðis viðureignir sumarsins í A-riðli, hvort lið unnið einn leik. Þetta með spennuna gekk svo sannarlega eftir.
Stjörnustúlkur urðu meistarar STJARNAN sigraði Fjölni 4:2 í framlengdum úrslitaleik í 3. flokki kvenna í ellefu manna liðum en leikurinn fór fram á Valbjarnarvelli á dögunum. Fyrirfram var búist við spennandi leik þar sem liðin stóðu uppi jöfn eftir innbyrðis viðureignir sumarsins í A-riðli, hvort lið unnið einn leik. Þetta með spennuna gekk svo sannarlega eftir.

Fyrri hálfleikur var jafn og aðeins eitt mark var skorað en það var gert af fyrirliða Garðbæinga, Elfu Björk Erlingsdóttur. Í síðari hálfleik jöfnuðu Fjölnisstúlkur fljótlega en Stjarnan komst yfir á ný. Á síðustu mínútu leiksins skoruðu Fjölnisstúlkur jöfnunarmarkið og þar með var ljóst að framlengja þyrfti leikinn svo hægt yrði að krýna meistara í 3. flokki.

Framlengingin var síðan að mestu eign Stjörnustúlkna. Lilja Sigurgeirsdóttir og Rut Stefánsdóttir skoruðu eitt mark í hvorum leikhluta án þess að andstæðingarnir næðu að klóra í bakkann, lokatölur 4:2.

Við mikinn fögnuð Stjörnustúlkna tóku þær við Íslandsbikarnum í leikslok úr hendi Lúðvíks Georgssonar formanns kvennanefndar KSÍ.

LIÐ Stjörnunnar, efri röð f.v.: Þórey Ósk Smáradóttir, Dóra Gígja Þórhallsdóttir, Erna Kristín Blöndal, Erna Jóhannesdóttir, Guðleif Þórðardóttir, Ester Rós Jónsdóttir, Yrsa Þöll Gylfadóttir, Sigrún Anna Snorradóttir, Guðrún Schopka og Auður Skúladóttir, þjálfari. Fremri röð f.v.: Rut Stefánsdóttir, Lilja Sigurgeirsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Elfa Björk Erlingsdóttir, Lára Björg Einarsdóttir, Lilja Kjalarsdóttir og Unnur Johnsen. Fjarverandi voru Guðrún Halla Finnsdóttir, Erla Margrét Grétarsdóttir, María Björg Ágústsdóttir og Kristjana Kristjánsdóttir.