FARÞEGUM með Hríseyjarferjunni Sævari fækkaði í sumar miðað við sama tímabil í fyrra og er fækkunin mest í ágúst. Farþegar í ágúst sl. voru 6.629 á móti 7.804 í sama mánuði í fyrra. Hins vegar voru farþegar heldur fleiri í júní og júlí í ár en í fyrra. Heildarfjöldi farþega tímbilið maí til ágúst í ár var 25.006 en var 25.680 á sama tímabili í fyrra og 25.801 árið 1995.
Farþegum með Sævari

fækkar á milli ára

FARÞEGUM með Hríseyjarferjunni Sævari fækkaði í sumar miðað við sama tímabil í fyrra og er fækkunin mest í ágúst. Farþegar í ágúst sl. voru 6.629 á móti 7.804 í sama mánuði í fyrra. Hins vegar voru farþegar heldur fleiri í júní og júlí í ár en í fyrra. Heildarfjöldi farþega tímbilið maí til ágúst í ár var 25.006 en var 25.680 á sama tímabili í fyrra og 25.801 árið 1995. Árið 1992 var fjöldi farþega yfir sumarmánuðina um 33.800.

Gunnar Jónsson sveitarstjóri í Hrísey segir þessa fækkun farþega mikið áhyggjuefni. "Við höfum verið að velta þessari þróun fyrir okkur án þess að menn hafi ákveðna skýringu á fækkuninni. Á þessum árum höfum við t.d. verið að eyða svipuðu fjármagni í auglýsingar og í fyrra kom út auglýsingabæklingur."

Farþegar 10.000 fleiri árið 1992

Gunnar segir að töluvert sé um að útlendingar sæki Hrísey heim en í sumar hafi þeir hópar sem þangað komu á vegum ferðaskrifstofa verið minni en áður. Hann segir að eftir 10. ágúst detti ferðamannastraumurinn niður og eftir það sé nær eingöngu um að ræða helgarheimsóknir á veitingastaðina sem standi alla jafna fram í októberbyrjun.

Í júlí í sumar var haldin fjölskylduhátíð í Hrísey og þá helgi var fjöldi farþega með Sævari á milli 1.800 og 1.900 manns, sem er svipaður farþegafjöldi og allan febrúarmánuð.

Farþegafjöldi Sævars allt árið í fyrra var 45.530 og svipaður árið 1995. Árið 1992 var heildarfjöldi farþega 55.574, eða um 10.000 fleiri en í fyrra. Miðað við 300 króna meðalfargjald er því tekjutap skipsins um 3 milljónir króna milli áranna 1992 og 1996.

Úttekt gerð á ferðamálunum

Hreppurinn hefur fengið einnar milljóna króna styrk til að gera úttekt á ferðamálunum og segir Gunnar stefnt að því að setjast yfir þau mál og leita leiða til að snúa þróuninni við. Í sumar voru haldnar fimm myndlistarsýningar í félagsheimilinu Sæborg sem er nýmæli og segir Gunnar þær hafa vakið verðskuldaða athygli.

Á þessar fimm sýningar komu um 1.300 gestir, eða að meðaltali um 260 á hverja sýningu. Til gamans má geta að íbúafjöldi í Hrísey er nú um 240. Gunnar segir stefnt að því að bjóða áfram upp á sýningar í eyjunni yfir sumartímann.

Endurbygging "Gamla Syðstabæjar"

Síðastliðinn vetur var félagið Hákarla-Jörundur stofnað, en tilgangur þess er að vinna að uppbyggingu "Gamla Syðstabæjar", vera í forsvari fyrir framkvæmdum og afla fjár til verksins. Endurbætur á húsinu, sem er kjallari, hæð og ris, eru kostnaðarsamar og er verið að leita leiða til að fjármagna þær. Framkvæmdir eru hafnar en markmiðið er að húsið verði safnhús og hýsi muni er tengjast hákarlaveiðisögu á Eyjafjarðarsvæðinu.

Morgunblaðið/Kristján ÁRIÐ 1996 var heildarfarþegafjöldi með Hríseyjarferjunni Sævari um 45.500 en árið 1992 voru farþegar um 10.000 fleiri.