ÞEIR sem kaupa bláa bíla eru oft hugmyndasnauðir, þeir sem velja silfurgráa bíla montnir og þeir sem aka á bílum í fölum litum eru að öllum líkindum á leið til sálfræðings, samkvæmt nýrri rannsókn breskra sálfræðinga.
Liturinn afhjúpar sálarlífið

London. The Daily Telegraph.

ÞEIR sem kaupa bláa bíla eru oft hugmyndasnauðir, þeir sem velja silfurgráa bíla montnir og þeir sem aka á bílum í fölum litum eru að öllum líkindum á leið til sálfræðings, samkvæmt nýrri rannsókn breskra sálfræðinga.

Sálfræðingarnir könnuðu litaval rúmlega þúsund ökumanna og komust að þeirri niðurstöðu að litur bílanna gæfi mun skýrari mynd af persónuleika manna en fata- eða íbúðaval þeirra.

Eigendur bíla í fölum litum, svo sem ljósbrúnna eða daufblárra, reyndust til að mynda líklegri til að eiga við þunglyndi að stríða en þeir sem velja aðra liti. Fimmtungur þeirra viðurkenndi að hafa fengið "þunglyndisköst" síðustu þrjú árin, en aðeins einn af hverjum 25 þeirra sem eiga græna eða rauða bíla og einn af hverjum 40 þeirra sem velja svarta, bláa eða silfurgráa bíla.

Sálfræðingarnir segja að þeir sem velja svarta bíla séu yfirleitt metnaðargjarnir og þeir sem eigi græna bíla íhaldssamir. Eigendur rauðra bíla séu hins vegar yfirleitt félagslyndir og hvatvísir.