KOLBEINN Kristinsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, gerði einkavæðingu á fjármagnsmarkaðnum og baráttu ráðsins við að knýja á um aðgerðir í eflingu samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja að umræðuefni í 80 ára afmæli Verslunarráðsins í gær. "Þrátt fyrir miklar breytingar í frjálsræðisátt sitja nokkur svið efnahagslífsins ennþá eftir.
ÐVerslunarráð Íslands áttatíu ára

Hvatt til rösklegrar einka-

væðingar ríkisfyrirtækja

KOLBEINN Kristinsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, gerði einkavæðingu á fjármagnsmarkaðnum og baráttu ráðsins við að knýja á um aðgerðir í eflingu samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja að umræðuefni í 80 ára afmæli Verslunarráðsins í gær.

"Þrátt fyrir miklar breytingar í frjálsræðisátt sitja nokkur svið efnahagslífsins ennþá eftir. Verslunarráð hvetur til dæmis til rösklegrar einkavæðingar á fjármagnsmarkaðnum þar sem ríkið hefur verið alltof umsvifamikið alltof lengi. Með því að helstu fyrirtækin á markaðnum eru nú að verða að hlutafélögum á ekkert að vera því til fyrirstöðu að gera myndarlegt átak á þessu sviði. Verslunarráð telur líka að mikilvægum þáttum atvinnulífsins eins og landbúnaðinum eða orkugeiranum veitti ekki af uppstokkun þannig að kostir samkeppninnar fái að njóta sín þar eins og á flestum öðrum sviðum. Þá eru ennþá hreinar tímaskekkjur í íslensku viðskiptalífi sem fyrirkomulag viðskipta með áfengi og tóbak er skýrt dæmi um."

Að sögn Kolbeins hafa flest íslensk fyrirtæki gengið í gegnum mikla innri tiltekt í rekstri sínum á undanförnum árum og segir hann að þá hafi þau verið að fjárfesta í mannauð í víðum skilningi, þar sem með aukinni hagræðingu og betra skipulagi hefur starfsfólk orðið hæfara en áður og framleiðni þess batnað. "Það er hins vegar almenn skoðun í atvinnulífinu að ekki hafi farið fram samsvarandi uppstokkun í ríkisrekstrinum og í fyrirtækjunum. Veruleg hagræðing verður að nást í ríkisrekstrinum til þess að hægt sé að standa betur að menntamálum og heilbrigðismálum og jafnframt að skila afgangi til þess að greiða niður skuldir. Menntakerfið og heilbrigðiskerfið verða að vera samkeppnisfær á alþjóðlegan mælikvarða eins og aðrir þættir í okkar þjóðarbúskap. Þess vegna hlýtur það að verða eitt af meginverkefnum næstu ára að skapa forsendur til að nýta kosti einkarekstrar og samkeppni í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Það eru lykilatriði í því að ná þeim árangri sem við höfum metnað til á þessum sviðum."

Ekki öll baráttumál Verslunarráðs í höfn

Formaður Verslunarráðsins segir að þrátt fyrir að stöðugleiki í verðlagi og sú festa í stjórn efnahagsmála sem verið hefur að vinna sér sess á undanförnum árum hafi skapað nýjar forsendur fyrir árangri í rekstri fyrirtækja og grundvöll fyrir aukinn hagvöxt á Íslandi. Hann bendir þó á að þetta þýði þó ekki að öll helstu baráttumál Verslunarráðsins séu í höfn og að tími sé kominn til þess að lýsa yfir endanlegum sigri og undirbúa að leggja Verslunarráðið niður.

"Nýir tímar hafa kallað á ný viðfangsefni og hraði breytinganna í viðskiptalífinu verður sífellt meiri og meiri. Hlutverk Verslunarráðsins er því að breytast frá því að vera baráttuafl viðskiptalífsins fyrir grundvallarmálum, í að vinna að framgangi margvíslegra breytinga á löggjöf og stjórnsýslu og annarra þátta sem gera íslensku viðskiptalífi kleift að ná árangri í vaxandi alþjóðlegri samkeppni," segir Kolbeinn Kristinsson.

Fyrri formenn heiðraðir

Mikill fjöldi gesta var í afmælisfagnaði Verslunarráðs Íslands á Hótel Sögu í gær en Davíð Oddsson, forsætisráðherra, var heiðursgestur í boðinu. Í erindi sem Davíð Oddsson flutti fjallaði hann um stöðu Íslands á nýrri öld í nýju alþjóðlegu umhverfi. Framkvæmdastjórn Verslunarráðsins heiðraði einnig þá fyrrverandi formenn ráðsins sem eru á lífi fyrir þeirra störf fyrir Verslunarráð Íslands í gegnum tíðina.

Morgunblaðið/Árni Sæberg FYRRVERANDI formenn Verslunarráðs Íslands voru heiðraðir með "tilbrigði við merki Verslunarráðs Íslands" fyrir vel unnin störf fyrir ráðið á liðnum árum. Á myndinni eru Haraldur Sveinsson, Gísli V. Einarsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Ragnar Halldórsson, Jóhann J. Ólafsson og Einar Sveinsson, allir fyrrverandi formenn Verslunarráðsins, ásamt Einari Benediktssyni, varaformanni Verslunarráðs, og Kolbeini Kristinssyni, formanni ráðsins. Á myndina vantar Þorvald Guðmundsson fyrrverandi formann Verslunarráðsins sem ekki hafði tök á að mæta í afmælisfagnaðinn.