ÍRÆÐU sinni í tilefni af 80 ára afmæli Verslunarráðs Íslands í gær fjallaði forsætisráðherra um stöðu Íslands á nýrri öld í nýju alþjóðlegu umhverfi. Sagði hann að staða Íslands á alþjóðavettvangi væri almennt hagstæð.
ÐDavíð Oddsson forsætisráðherra í ræðu í tilefni af 80 ára afmæli Verslunarráðs

Markaðsbúskapur efldur og menntakerfið bætt

Davíð Oddsson forsætisráðherra segist sjá fyrir sér mikilvægar breytingar á íslenskri efnahags- og þjóðfélagsgerð á næstu árum. Markaðsbúskapur verði efldur, menntakerfið bætt og opinber búskapur endurskipulagður og muni staða Íslands í alþjóðlegu umhverfi nýrrar aldar að verulegu leyti ráðast af því hvernig til takist.

ÍRÆÐU sinni í tilefni af 80 ára afmæli Verslunarráðs Íslands í gær fjallaði forsætisráðherra um stöðu Íslands á nýrri öld í nýju alþjóðlegu umhverfi. Sagði hann að staða Íslands á alþjóðavettvangi væri almennt hagstæð. Íslendingar eigi náin samskipti við mörg ríki og séu aðilar að helstu alþjóðastofnunum. Aðgangur að mikilvægustu mörkuðum sé tryggður með ágætum hætti og í Evrópu, okkar langstærsta markaði, sé hagsmunum Íslands vel borgið með EES-samningnum. Engir brýnir hagsmunir kalli á breytingu í þeim efnum og þótt aðild að Evrópusambandinu sé auðvitað ekki útilokuð séu flestir hér á landi sammála um að aðild myndu fylgja stórfelldir annmarkar. Aðild verði aukinheldur enn minna aðlaðandi en ella meðan þróunin í ESB sé svo mjög í átt til miðstýringar sem raun beri vitni.

Davíð sagði að Ísland ætti að notfæra sér sitt sérstaka samband við Evrópuríkin og bandalag þeirra og ekki láta þar við sitja, heldur samnýta þá möguleika sem þar gefist með nánum tengslum í austur og vestur. "Við eins og svo margir aðrir kveinum yfir reglugerðarfargani Evrópusambandsins. Við eigum að láta af slíkum kveinstöfum. Þess í stað eigum við að aflúsa okkur sjálf í reglugerðarmálum og forðast að apa reglugerðaráráttuna eftir. Við höfum sérstöðu og eigum að nýta okkur hana. Það gefur ekki fullkomlega rétta mynd af möguleikum okkar að segja að við eigum að vera gagnvart Evrópusambandinu eins og Hong Kong gagnvart öðrum hlutum Kína, en það gefur heldur ekki alranga mynd af möguleikunum," sagði Davíð.

Hann vék síðan að fyrirætlunum Evrópusambandsins um sameiginlega mynt árið 1999 og sagði að ríkisstjórnin myndi á næstunni skipa nefnd til að fjalla um áhrif myntsamstarfsins á íslenskt efnahagslíf í samræmi við ályktun Alþingis frá því í vor. Það sé ljóst að engin þjóð verði þátttakandi í myntsamstarfinu nema hún sé fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Mestu skipti á næstu árum hvað varðar peninga-, og gengismál að við sönnum fyrir sjálfum okkur og öðrum að við getum fylgt sjálfstæðri stefnu í þessum málum sem tryggi stöðugleika, vöxt og velferð.

Þjóðir háðar hver annarri

Davíð sagði að þróunin í alþjóðamálum væri um margt íslenskum hagsmunum til framdráttar til lengri og skemmri tíma litið. "Þjóðir verða sífellt háðari hver annarri. Það gerir stærri ríki háð alþjóðasamstarfi langt umfram það sem áður var og leiðir til aukins alþjóðasamstarfs og fleiri og öflugri alþjóðastofnana. Í kjölfarið festast enn frekar í sessi venjur og leikreglur, sem styrkja stöðu hinna smærri í alþjóðasamfélaginu. Örar framfarir í fjarskiptum og tölvutækni minnka óðum kostnað sem fylgir fjarlægð og miklu ódýrara og fljótvirkara verður að koma á framfæri upplýsingum eða afla þeirra. Allir þessir þættir hafa þau áhrif að minnka muninn á stórum og smáum og á það jafnt við um ríki, fyrirtææki og aðra sem starfa á alþjóðavettvangi."

Davíð bætti því við að eitt athyglisverðasta einkennið í þróun alþjóðamála nú væri hvernig þau mótuðust í auknum mæli fyrir tilstilli miklu fleiri aðila en ríkja og stofnana þeirra og eftir mun fleiri leiðum en diplómatískum og pólitískum. Dæmi um jákvæð áhrif þessarar þróunar fyrir hagsmuni okkar væri hversu umhverfismál hefðu komist ofarlega á dagskrá. Það styrkti ferðaþjónustu og útflutning og ætti þátt í því að gera orkufrekan iðnað hér aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. "Við þurfum hins vegar að gæta þess að við tökum jafnan ríkt tillit til umhverfissjónarmiða við ákvarðanir í þessum efnum. Vel varðveitt umhverfi getur orðið okkar dýrmætasta fjárfesting, þegar fram líða stundir," sagði Davíð. Dæmi um neikvæð áhrif þessarar þróunar fyrir okkur væru hvalamálið og afskipti umhverfisverndarmanna af fiskveiðum.

Staða Íslands sterk

Davíð gerði einnig fjárfestingu í orkufrekum iðnaði að umtalsefni og sagði að hún hefði aukist jafnt og örugglega á síðustu misserum. Það gerðu sér ekki allir grein fyrir þessum vexti, en með stækkun álversins í Straumsvík, þriðja ofni Járnblendiverksmiðjunnar og byggingu álvers Norðuráls næmi orkunotkunin 2.600 GW stundum á ári. Til samanburðar hefði verksmiðja Atlantsáls sem mikið hefði verið í umræðunni fyrir nokkrum árum átt að nota 3 þúsund gígawattstundir á ári. Ekki sé óvarlegt að álykta að á næstu fáeinu árum muni eðlileg stækkunarþörf þessara fyrirtækja leiða til notkunar á um 3 þúsund gígawattstundum á ári til viðbótar.

Davíð sagði að það færi ekki á milli mála að staða Íslands í samanburði við aðrar þjóðir sem hefðu náð langt í efnahagsmálum væri góð. Helstu mælikvarðar á efnahag og lífskjör sýndu þetta glöggt. Í því sambandi mætti benda á fjögur atriði. Í fyrsta lagi hefði Ísland verið í 5. sæti ríkja innan OECD hvað snertir landsframleiðslu á mann árið 1995. Síðan þá hefði hagvöxtur hér verið meiri en í flestum öðrum ríkjum og því spáð að svo verði áfram og fyrir vikið megi búast við að þessi samanburður verði okkur jafnvel enn hagstæðari á næstu árum.

Í öðru lagi hefði Ísland lent í 7. sæti á lista Alþjóðabankans yfir auðugustu þjóðir heims. Listinn væri byggður á lauslegu mati á heildareignum á mann og væri tekið tillit til mannauðs og náttúruauðlinda eins og við væri komið auk fjármunaeignar.

Í þriðja lagi uppfyllti Ísland svonefnd Maastricht-skilyrði um verðbólgu, vexti og afkomu og skuldastöðu hins opinbera og í fjórða lagi hefði lánshæfiseinkunn Íslands verið hækkuð í tvígang að undanförnu af alþjóðlegum matsfyrirtækjum.

"Á þessum grunni verðum við að byggja á nýrri öld. Í því felst einkum að viðhalda stöðugleikanum og hagfelldu rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið. Reynslan sýnir að jafnvægisstefna í ríkisfjármálum og peningamálum er öruggasta leiðin að þessu markmiði. Slík stefna hlýtur því að móta hagstjórn á nýrri öld."

Umbætur á markaðsgrunninum

Davíð vék einnig að því að hvaða leyti við stæðum höllum fæti í samanburði við aðrar þjóðir og sagði að flestar athuganir bentu til þess að íslenskur þjóðarbúskapur væri skemmra á veg kominn í að virkja markaðsöflin en hjá öðrum þjóðum í fremstu röð, þótt miklar breytingar hefðu orðið í þessum efnum á síðustu árum. Fyrir vikið væru framleiðni og afköst minni en eðlilegt væri að gera kröfu um og því væri brýnt að gera frekari umbætur á markaðsgrunni í íslenskum þjóðarbúskap. Nú væri unnið að slíkum umbótum í fjármálastarfsemi og jafnframt væri verið að taka fyrstu skrefin á fleiri sviðum svo sem í orkumálum og fjarskiptum.

Davíð sagði að einnig væri ástæða til að vekja sérstaka athygli á tveimur öðrum málaflokkum. Annars vegar væri ljóst að bæta þyrfti menntakerfið, en menntunin væri öflugasta tækið til að nýta sér þá möguleika sem byðust í breyttum heimi og við yrðum að líta á menntun sem mikilvæga fjárfestingu á nýrri öld. Hins vegar væri margt í búskap hins opinbera og velferðarkerfinu sem þyrfti að betrumbæta. Til að mynda væri samneyslan hátt hlutfall af landsframleiðslu samanborið við önnur lönd og velferðarkerfið þyrfti að endurskipuleggja með það fyrir augum að skapa einstaklingunum betri skilyrði til þess að ráða eigin málum. "Í þessum efnum þurfa sveitarfélögin að taka sér tak og stöðva eða draga úr sjálfvirkni félagslegra útgjalda. Núverandi skipan þessara mála er um margt úrelt og óhagkvæm, enda var grunnur lagður að henni við allt aðrar aðstæður en menn sjá fyrir á næstu öld."

Davíð sagði einnig að á síðustu árum hefðum við lagt góðan grundvöll að áframhaldandi sókn til bættra lífskjara á nýrri öld. "Nýting mikilvægustu auðlindar okkar byggist á aðferð, sem að flestra áliti er talin skila mestri hagkvæmni, þótt auðvitað sé deilt um fiskveiðistjórnunarkerfið og til séu góðir menn sem trúa því af einlægni að hægt sé að auka afrakstur sjávarútvegsins með því að leggja á hann nýja skatta í stórum stíl. Við höfum gjörbreytt efnahagsumgerðinni og tryggt stöðugleika. Við höfum þannig reynslu af því að skipulagsbreytingar skila árangri. Þessum breytingum þarf að halda áfram og ég sé einmitt fyrir mér mikilvægar breytingar á á íslenskri efnahags- og þjóðfélagsgerð á næstu árum. Markaðsbúskapur verður efldur, menntakerfið bætt og opinber búskapur endurskipulagður. Staða Íslands í alþjóðlegu umhverfi nýrrar aldar mun ráðast af verulegu leyti af því hvernig til tekst í þessum efnum."

Davíð sagði að hið áttræða Verslunarráð hefði miklu hlutverki að gegna. Auka þyrfti svigrúm fólks og fyrirtækja til þess að sjá málum sínum borgið. "Leikreglur eiga að vera fáar, einfaldar og skýrar ­ og umfram allt sanngjarnar. Ríkisvaldið á að gefa þeim sem afl hafa og áræði víðtækt svigrúm til athafna, en það má aldrei líða að slíkt svigrúm sé misnotað svo að þeir sem höllum fæti standa um lengri eða skemmri tíma, troðist undir. Gamla kjörorðið "Íslandi allt" verður merkingarlítið ef sérhver þegn þess getur ekki heilshugar og af sannfæringu tekið undir það."

Morgunblaðið/Árni Sæberg DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra flytur ræðu sína í tilefni af 80 ára afmæli Verslunarráðs Íslands í gær.

Umhverfið getur orðið dýrmætasta fjárfestingin

Velferðarkerfið þarf að endurskipuleggja