HRAÐFRYSTIHÚSIÐ Frosti hf. í Hnífsdal hefur fallist á að greiða starfsmanni hjá fyrirtækinu, Maríu Kristófersdóttur, bætur og málskostnað vegna uppsagnar á launalið vinnusamnings hennar um störf við gæðaeftirlit 9. júní sl. Þetta er niðurstaða í réttarsátt sem náðist milli lögmanna deiluaðila vegna málsins í Félagsdómi sl. þriðjudag.
Verkfallsvarsla ástæða uppsagnar

HRAÐFRYSTIHÚSIÐ Frosti hf. í Hnífsdal hefur fallist á að greiða starfsmanni hjá fyrirtækinu, Maríu Kristófersdóttur, bætur og málskostnað vegna uppsagnar á launalið vinnusamnings hennar um störf við gæðaeftirlit 9. júní sl. Þetta er niðurstaða í réttarsátt sem náðist milli lögmanna deiluaðila vegna málsins í Félagsdómi sl. þriðjudag.

ASÍ fór með málið fyrir hönd Verkalýðs og sjómannafélags Álftfirðinga vegna Maríu og stefndi VSÍ fyrir Félagsdóm fyrir hönd Frosta hf. Stefnandi hélt því fram að fyrirtækið hefði gerst brotlegt við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur þegar það sagði Maríu upp launalið vinnusamnings hennar og færði hana til í starfi, þar sem eina ástæða uppsagnarinnar hefði verið sú að eiginmaður Maríu hefði staðið í verkfallsvörslu, m.a. gegn Frosta hf. í verkfalli verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum sl. vor.

Ástæðu ekki getið í uppsagnarbréfi

Í stefnunni kom fram að María hefði verið fastráðin hjá Frosta í yfir 20 ár og í starfi skoðunarmanns í rúmlega tvö ár. Var málsatvikum svo lýst í stefnu að verkstjóri hjá Frosta hefði komið að máli við Maríu 9. júní og sagt henni að hún ætti ekki lengur að vera í starfi gæðaeftirlitsmanns í fyrirtækinu. Ástæðan væri sú að eiginmaður hennar hefði staðið í verkfallsvörslu. Sama kvöld hefði syni Maríu verið falið að afhenda henni uppsagnarbréf á launalið án þess að ástæðu væri getið.