BRESKA stjórnin skoraði í gær á Walesbúa að samþykkja tillöguna um eigið þing en gengið verður til atkvæða um hana í dag. Áhuginn á auknu sjálfræði er miklu minni í Wales en í Skotlandi en skoðanakannanir benda þó til, að það verði samþykkt.
Walesbúar kjósa um eigið þing

London. Reuter.

BRESKA stjórnin skoraði í gær á Walesbúa að samþykkja tillöguna um eigið þing en gengið verður til atkvæða um hana í dag. Áhuginn á auknu sjálfræði er miklu minni í Wales en í Skotlandi en skoðanakannanir benda þó til, að það verði samþykkt.

John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, sagði í Newport í Suður-Wales í gær, að velskt þing myndi koma landsmönnum að gagni í mennta-, heilbrigðis-, húsnæðis- og atvinnumálum auk þess sem það væri liður í að færa breska stjórnskipan til nútímalegs horfs.

Atkvæðagreiðslan er í samræmi við þá stefnu Verkamannaflokksins að færa aukið vald út í héruðin.

Felld fyrir 18 árum

Í Wales talar aðeins fimmtungur landsmanna velsku og áhugi hinna 80% á eigin þingi er ekki mikill. Sams konar tillaga var raunar felld með þremur fjórðu atkvæða fyrir 18 árum en í skoðanakönnun um síðustu helgi kom fram, að 37% eru hlynnt eigin þingi en 29% andvíg. Þriðjungurinn var óákveðinn.



Tveir menningarheimar/18 Reuter STUÐNINGSMENN tillögunnar um að stofnað verði þing í Wales hvetja ökumenn í Cardiff til að samþykkja hana í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag.