Vallarvinir
fá starfsleyfi
í Keflavík
FLUGMÁLASTJÓRN á Keflavíkurflugvelli hefur veitt nýju fyrirtæki,
Vallarvinum ehf., starfsleyfi til að afgreiða fragtflugvélar á vellinum. Fyrirtækið mun annast alla afgreiðslu fyrir Flugflutninga ehf., umboðsaðila Cargolux hér á landi, og fleiri aðila sem hafa í undirbúningi að hefja fragtflug til Íslands.
Þórarinn Kjartansson, framkvæmdastjóri Vallarvina, sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta væri í fyrsta sinn sem öðrum aðilum en Flugleiðum hefði verið veitt starfsleyfi til að ferma og afferma fragtvélar á vellinum. Hingað til hefði þessi þáttur alfarið verið í höndum Flugleiða, enda hefðu aðrir aðilar ekki talið hagkvæmt að fjárfesta í þeim búnaði sem þyrfti til að annast afgreiðsluna. "Við fengum mjög jákvæð og skjót viðbrögð flugvallarstjóra og Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli við umsókn okkar, sem ég held að marki tímamót á þessu sviði," sagði hann.
Útlit fyrir aukin umsvif
Vallarvinir verða í leiguhúsnæði til að byrja með á Keflavíkurflugvelli og þar munu starfa um 8-10 manns. Útlit er fyrir að umsvifin muni fara ört vaxandi. "Cargolux flýgur hingað þrisvar í viku og við munum sjá um alla afgreiðslu á því flugi," sagði Þórarinn. "Íslandsflug er að hefja fragtflug frá Keflavíkurflugvelli og við höfum gert tilboð í að afgreiða það flug. Einnig mun fyrirtækið Polar Air Cargo hefja fragtflug á næstunni, en sölu- og þjónustuumboð verður væntanlega í höndum Flugflutninga. Þetta fyrirtæki mun hafa viðkomu hér á landi einu sinni í viku í flugi milli Amsterdam og Osaka í Japan. Ég á von á því að þetta flug hefjist í októbermánuði, en þó er það ekki endanlegt."
Þórarinn segir að búið sé að útvega tæki og búnað fyrir starfsemi Vallarvina og fyrstu tækin fari í skip í næstu viku. "Það fylgja þessu miklar fjárfestingar. Við erum með skemmu á leigu á Keflavíkurflugvelli fyrir afgreiðslu, skrifstofur o.fl., en erum að undirbúa byggingu á 500 fermetra skemmu til að taka við þessari starfsemi."
Flutningsgjöld munu lækka
Það kemur fram hjá Þórarni að samkeppnin sé að harðna verulega í fragtfluginu bæði með tilkomu fragtflugs Flugleiða, Íslandsflugs og fleiri erlendra aðila. "Það verður mikil samkeppni og útlit er fyrir offramboð á flutningsgetu um tíma. Þetta er hins vegar jákvætt fyrir markaðinn og þegar upp er staðið munu flutningsgjöldin eflaust lækka."