STUTTGART hyggst nýta upplagt tækifæri til að verða Evrópumeistari bikarhafa í vor, þar sem bikarmeistarar sterkustu knattspyrnuþjóða álfunnar leika nú í meistaradeildinni, t.d spænska stórveldið Barcelona.
Balakov sigurviss STUTTGART hyggst nýta upplagt tækifæri til að verða Evrópumeistari bikarhafa í vor, þar sem bikarmeistarar sterkustu knattspyrnuþjóða álfunnar leika nú í meistaradeildinni, t.d spænska stórveldið Barcelona.

Krassimir Balakov, hinn hæfileikaríki leikstjórnandi Stuttgart, segist sannfærður um að sigur liðsins í bikarkeppninni í Þýskalandi síðastliðinn vetur hafi aðeins verið upphafið að nýrri gullöld í sögu félagsins. Reuter- fréttastofan hafði eftir Balakov í gær, að hann væri sannfærður um að nafn VfB Stuttgart yrði grafið á Evrópubikarinn eftir úrslitaleikinn í maí. "Í vetur vil ég vinna þýska meistaratitilinn, bikarkeppnina og verða Evrópumeistari bikarhafa," sagði búlgarski landsliðsmaðurinn.

Þó nokkra græðgi megi greina í orðum Balakovs, er ljóst að þýska liðið hefur á að skipa mörgum mjög sterkum leikmönnum, t.d. landsliðsmanninum Fredi Bobic, Nígeríumanninum Jonathan Akpoborie og hinum rúmenska Florin Radicioiu.