Frekari skulda-
bréfaútgáfa
í athugun
SALA á skuldabréfum úr útboði
Landsvirkjunar að fjárhæð 1 milljarður króna hefst föstudaginn 19. september. Íslandsbanki hefur umsjón með útboðinu og verða bréfin skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Um er að ræða bréf í fyrsta flokki en stefnt er að því að bæta við flokkinn á næstu tveimur árum ef kjör á innlendum verðbréfamarkaði leyfa, að því er segir í útboðslýsingu.
Þá hafa Íslandsbanki og Landsvirkjun komist að samkomulagi um að bankinn haldi úti virkri viðskiptavakt til að auðvelda endursölu bréfanna. Að sögn Kristjáns Arasonar hjá Íslandsbanka bætist þar með við stór flokkur á Verðbréfaþingi með virka viðskiptavakt, en fyrir er slíkri vakt haldið uppi á húsbréfum, spariskírteinum og húsnæðisbréfum. Hann segir stefnt að því að gera þennan flokk að þeim fjórða flokki bréfa sem teljist mjög seljanleg á Verðbréfaþingi og í þeim tilgangi verði að lágmarki 20 milljóna króna kaup- og sölutilboð inni á hverjum tíma.
Ávöxtunarkrafa 1011 punktum yfir sambærilegum spariskírteinum
Bréfin verða með einum gjalddaga eftir 15 ár og er lágmarksfjárhæð þeirra 5 milljónir króna. Landsvirkjun verður heimilt að kalla inn 1. flokk bréfanna að 10 árum liðnum. Á útgáfudegi verða þau seld á gengi sem miðast við ávöxtunarkröfu í flokki húsbréfa 96/2, að frádregnum 15 punktum. Þetta samsvarar um 1011 punkta hærri ávöxtunarkröfu en er á spariskírteinum af sambærilegri lengd.
Hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári nam 1.740 milljónum króna samanborið við 629 milljóna króna tap árið þar á undan. Handbært fé frá rekstri var tæplega 2,3 milljarðar og eigið fé fyrirtækisins í árslok var 27,8 milljarðar króna, sem er meira en samanlagt eigið fé allra viðskiptabanka og sparisjóða í landinu. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins er nú 36,1%.
HALLDÓR Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar, og Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka, handsala samning um skuldabréfaútboð Landsvirkjunar.