BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að þarlend stjórnvöld myndu ekki undirrita sáttmála um bann við notkun á jarðsprengjum. Gerði forsetinn grein fyrir öðrum skrefum sem Bandaríkjastjórn teldi rétt að taka til að draga úr þeim skaða sem sprengjurnar valda. Hann gaf ennfremur varnarmálaráðuneytinu fyrirmæli um að þróa vopn sem geri jarðsprengjur úreltar fyrir árið 2006.
Tugir ríkja fallast á drög að sáttmála um jarðsprengjur Clinton neitar að

undirrita bannið

Washington. Reuter.

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að þarlend stjórnvöld myndu ekki undirrita sáttmála um bann við notkun á jarðsprengjum. Gerði forsetinn grein fyrir öðrum skrefum sem Bandaríkjastjórn teldi rétt að taka til að draga úr þeim skaða sem sprengjurnar valda. Hann gaf ennfremur varnarmálaráðuneytinu fyrirmæli um að þróa vopn sem geri jarðsprengjur úreltar fyrir árið 2006.

Bandaríkjastjórn telur mjög miður að ekki skyldi nást samkomulag um drög að sáttmála um bann við notkun jarðsprengna, sem Bandaríkin geta verið aðilar að, að því er Mike McCurry, fréttafulltrúi Bandaríkjastjórnar, sagði í gær. Tugir ríkja lýstu í gær yfir stuðningi við sáttmáladrögin á ráðstefnu sem stendur í Ósló, en áætlað er að sáttmálinn sjálfur verði undirritaður í Ottawa í Kanada í desember. McCurry sagði á blaðamannafundi að Bandaríkin teldu eigi að síður rétt að vinna að útrýmingu jarðsprengna í heiminum.

Vill tryggja öryggi hermanna

Bandaríkjamenn vildu að sáttmálinn heimilaði þeim að halda þeim sprengjum sem þeir hafa í Kóreu í allt að níu ár, og undanþága yrði gerð vegna sprengna sem eru þannig búnar að þær aftengjast nokkrum dögum eftir að þeim er komið fyrir í jörð. Clinton sagðist telja að Kóreuskilmálinn væri nauðsynlegur til þess að vernda bandaríska hermenn við skyldustörf þar. Sagðist forsetinn ekki vilja auka hættuna sem þeir væru í.

"Sem æðsti yfirmaður hersins mun ég ekki senda hermenn okkar til að verja frelsi okkar og annarra án þess að gera allt sem ég get til að tryggja að öryggi þeirra verði eins mikið og mögulegt er," sagði forsetinn.